Það er draumur minn að stofna samtök þeirra sem eiga við drykkjuvandamál að stríða, eftir að ég klúðraði ca fjórðu helginni í röð með því að drekka ekki dropa. Ég virðist ekki geta drukkið áfengi með góðu móti.
Hópurinn myndi hittast einu sinni í viku, annað hvort á föstudögum eða laugardögum. Hér eru nokkrar hugmyndir varðandi starfsemina:
* Félagar myndu segja frá sér og vandræðum með áfengisdrykkjuna.
* Farið væri yfir jákvæð áhrif áfengis á félagslíf og líkama. Vísindamenn myndu halda fyrirlestra um ágæti áfengis.
* Félagar yrðu settir í erfiðar aðstæður, t.d. að tala við leiðinlegt fólk, með og án áfengis við hönd. Upplifanirnar bornar saman. Ályktanir dregnar.
* Styrktaraðili myndi bjóða frítt áfengi á öllum fundum. Skylda væri að drekka einn bjór.
* Vettvangsferðir yrðu farnar niður í bæ um helgar. Þar myndu félagar hvetja hvorn annan áfram í drykkjunni.
* Innbirgðiskeppni meðal félaga samtakanna um að halda sér blautum sem flestar helgar í röð. Setningar eins og "Ég heiti Finnur og ég hef verið blautur í 3 vikur" væru gjaldgengar og fagnað með lófataki, jafnvel hrópum.
* Að mæta fullur á fund yrði álitið gríðarlegt styrkleikamerki, jafnvel merki um bata.
Ég er viss um að einn daginn muni ég geta brotist úr hlekkjum edrú lífsins og orðið sauðdrukkinn. Þangað til verða vinir mínir að vera þolinmóðir. Ekki gefast upp á mér.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.