Ég lagði af stað í vinnuna klukkan 7:50 úr Hafnarfirðinum, þar sem ég nú bý. Samkvæmt útreikningum mínum eru 9 km í vinnuna. Excel segir mér þá að ég eigi að vera 9 mínútur á leið í vinnuna, aki ég á 60 km meðalhraða (ljósin hægja á mér). Ég gef mér svo eina mínútu í að ganga úr bílnum á skrifstofuna. Þannig að ég á að vera mættur á slaginu klukkan 8:00.
Áætlunin breyttist lítillega þegar kom í ljós að það var biðröð frá ca miðbæ Reykjavíkur upp í Hafnarfjörð (og sennilega langleiðina til Keflavíkur ef ekki lengra) þegar ég lagði af stað. Ég ók þessa 9 kílómetra á 27 mínútum, sem gera 20 km hraða á klukkustund. Hræðilegt!
Þetta gæti svo sem verið verra. Trukkur gæti misst stjórn á sér og kramið mig í bílnum mínum hægt og rólega rétt eftir að hann rekur sig í útvarpið og skiptir yfir á Léttbylgjuna þar sem Celiné Dion myndi syngja lög eftir Shania Twain. Og þó.
Héðan í frá fer ég að sofa rétt eftir hádegi, svo ég vakni nógu snemma til að sleppa við þessa umferð.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.