Rúntarar eru skepnur sem fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ekki af því þeir virðast vera haldnir þeirri fáránlegu hugmynd að þeir séu skíturinn heldur vegna þess að þeir tefja umferðina mikið að ástæðulausu. Ég ákvað að gamni mínu að reikna kostnaðinn við að hafa þessi dýr í umferðinni:
Samkvæmt Hagstofunni voru 25.574 manns á rúntaldrinum 17-22ja ára í árslok 2005. Ef ég reikna með að 90% þeirra séu með bílpróf og 50% þeirra sem eru með bílpróf rúnti amk 1x í viku þá fæ ég út að á Íslandi eru um 11.508 rúntarar.
Ég gef mér ýmislegt í þessum útreikningi þar sem þetta er ekki (ennþá) virt vísindaveftímarit. Ég gef mér t.d. að hver rúntari fari að meðaltali tvisvar að rúnta á viku, að hver rúntur varir í eina klukkustund og að á þeim tíma nái rúntarinn að tefja átta bíla að meðaltali um að meðaltali tvær mínútur hvern. Ég reikna enn fremur með því að í hverjum bíl sem er tafður í umferðinni séu tvær manneskjur að meðaltali.
Þetta gefur okkur að hver rúntari tefji fólk um 96 mínútur alls í umferðinni á viku. Alls tefja þá allir rúntarar fólk um 1.104.797 mínútur á viku og 57.646.719 á ári. Þetta gera 960.779 klukkustundir á ári.
Í lok árs 2004 (launatölur fyrir árið 2005 ekki til á hagstofunni) voru meðallaun fólks um kr. 272.400 á öllu landinu. Ef hver mánuður er 21,73 vinnudagar og hver vinnudagur 8 klukkustundir má fá út að meðaltímakaup fólks eru kr. 1.567. Ég geri ráð fyrir að fólk meti frítíma sinn jafnt tímakaupi sínu og að fólk tefjist aðallega á kvöldin þegar það er í fríi.
Samkvæmt þessu eru rúntarar að kosta þjóðfélagsþegna kr. 1.505.540.138 á ári eða rúmlega 1,5 milljarða króna, bara ef talinn er tíminn sem þeir taka frá okkur. Þetta gera um kr. 5.020 á hvern íbúa landsins (í árslok 2005) eða kr. 7.748 á hvern þann sem er með bílpróf (ef 90% allra á bílprófsaldri eru með bílpróf).
Rúntarar eru semsagt að pirra mig að verðmæti kr. 7.748 á ári.
Mér líður betur núna.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.