laugardagur, 15. júlí 2006

Ég hef ekki séð mikið af 24 sem fjallar víst um ofurhetjuna Jack Bauer en þættirnir eiga að gerast á rauntíma, 24ra klukkustunda tímabili. Einn sólarhringur hjá Jack Bauer tekur 24 vikur úr lífi almennings. Allavega, ég er að hugsa um að láta gera svona þætti um mig. Svona yrði t.d. dagurinn í dag:

00:00 - 01:00: Ligg andvaka og hugsa um daginn sem mun koma. Gæti verið spennandi þáttur þar sem vonir og þrár fyrir morgundaginn koma í ljós.
01:00 - 02:00: Ligg sofandi en tala stundum upp úr svefni. Eflaust fyndinn þáttur.
02:00 - 03:00: -||-
03:00 - 04:00: Rumska og sest upp. Veit ekkert í ca 10 mínútur. Leggst svo aftur niður og sofna.
04:00 - 05:00: Ligg sofandi en tala stundum upp úr svefni.
05:00 - 06:00: -||-
06:00 - 07:00: -||-
07:00 - 08:00: Ligg sofandi alveg þar til í blálokin á þættinum þegar ég vakna við vekjarann en snúsa og sef til ca 7:55 þegar ég hleyp á fætur. Þátturinn myndi enda á spennandi hátt á meðan ég tannbursta mig.
08:00 - 09:00: Mæti aðeins of seint í vinnuna eftir að hafa skutlað Soffíu í vinnuna. Áhorfendur fá mögulega kveðjukoss (áhorfsmet bætt). Í vinnunni fer ég yfir endurgreiðslulista skattstofunnar. Skoða Wikipedia smá.
09:00 - 10:00: Held áfram að vinna. Smá kaffipása. Söguhetjan kemst að því að öll blöð skattstofunnar eru úrelt og ólesanlegt. Ég raula því lítið lag á meðan ég drekk vatnsglas (óskarssena).
10:00 - 11:00: Ég íhuga að hætta í vinnunni snemma til að þrífa bílinn þar sem hann er óhreinn. Þátturinn endar á þessari vangaveltu svo fólk horfi á næsta þátt.
11:00 - 12:00: Ákvörðun tekin; vinna áfram til hádegis og fara svo í hádegismat. Þátturinn endar þegar hádegismaturinn er að byrja. Vel hefur gengið að fara yfir listann á skattstofunni.
12:00 - 13:00: Keyrt yfir í Fellabæ í hádegismat. Annað aukahlutverk þáttanna kynnt en það er Helgi bróðir minn. Hann er spaugilegur afgreiðslumaður sem er alltaf með sprell á reiðum höndum. Kortersspjall við hann er nóg til að auka áhorfið talsvert. Næst eru brauð smurð og étin.
13:00 - 14:00: Óvænt twist: Soffía hringir því það er kominn matur. Ég sæki hana. Áhorfið margfaldast þar sem fegurðardís er mætt. Soffía fær sér smurt brauð að borða gegn spádómum spjallborða internetsins. Eftir mat er lagst út í garð og spjallað saman. Umræðuefni; verslunarmannahelgin. Allt verður vitlaust yfir umsögn mína um útlendinga hérlendis.
14:00 - 15:00: Ákveðið að þrífa bílinn eftir að hafa skutlað Soffíu aftur í vinnuna. Það gengur illa að þrífa bílinn því vatnssnúran beyglast alltaf. Ég verð pirraður. Hörkuspennandi þáttur. Góður tími tekinn í þessa aðgerð til að halda fólki spenntu yfir hvað skuli gert næst.
15:00 - 16:00: Farið á skattstofuna aftur til að slá garðinn. Stórhætta: vantar bensín á vélina. Svaðilför í Hraðbúðina að taka bensín. Spennan er byggð upp en ekkert hættulegt gerist þó, sem betur fer. Byrjað að slá garðinn.
16:00 - 17:00: Garðurinn sleginn áfram. Þegar því er lokið hugsa ég mig um hvort ég eigi að raka garðinn einnig. Þátturinn endar.
17:00 - 18:00: Ákvörðun tekin: ekki nennt að raka garðinn. Því frestað til morguns. Ég fer heim, tek saman íþróttadót og fer í ræktina. Endasena: Ég opna hurðina á ræktinni og geng inn. Hurðin lokast á eftir. DAMM! 24.
18:00 - 19:00: Í ræktinni er enginn að lyfta (sparar líka launagreiðslur til leikara). Ég lyfti þríhöfða og fætur. Þegar 15 mínútur eru eftir af þættinum fer ég í sturtu. Þá er klippt yfir til Soffíu þar sem hún er að vinna. Túristar vilja vita hvernig best sé að komast upp á Kárahnjúka. Soffía gefur góðar leiðbeiningar, brosandi.
19:00 - 20:00: Klippt aftur yfir á mig þar sem ég er að greiða mér. Ég prófa nýja hárgreiðslu til að auka áhorfið en hætti svo við. Fer yfir í Fellabæ, horfi á sjónvarpið í 40 mínútur. Spjalla við mömmu. Geri mig að lokum tilbúinn til að ná í Soffíu í vinnuna.
20:00 - 21:00: Serían er slegin af. Talið er að 40 mínútna senan af mér að horfa á sjónvarpið í síðasta þætti hafi verið áhrifaþáttur.
21:00 - 22:00: -Frestað-
22:00 - 23:00: -Frestað-
23:00 - 24:00: -Frestað-

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.