Það er ótrúlegt hve auðvelt er að spara tíma og peninga með litlum breytingum. Fólk virðist bara ekki vera að átta sig á því, hvað þá taka þessar tillögur mínar trúanlegar.
Dæmi: Það er hægt að spara hundruði milljónir króna á ári ef hver og einn íslendingur sleppir því að hlæja og segir "lol" í staðinn, sem er skammstöfun fyrir "Laughing Out Loud" (ísl. hlær upphátt). Hér eru rannsóknargögn mín og útreikingar:
Á Íslandi búa um 300.000 manns. Gefum okkur að 95% hafi þann hæfileika að hlæja. Það eru 285.000 manns. Gefum okkur einnig að 95% af þeim geta talað og lært ný orð á stuttum tíma (semsagt ekki ungabörn og vanvitar), sem gera 270.750 manns.
Gefum okkur að hver einstaklingur hlæi 10 sinnum á dag að meðaltali. Gefum okkur ennfremur að í 40% tilvika hlær einstaklingur það mikið að hann sé óvinnufær í þær sekúndur sem hláturinn fer fram, sem gera 4 hláturstilvik. Það síðasta sem við gefum okkur svo er að hver hlátur sem gerir okkur óvinnufær endist í 10 sekúndur.
Að segja "lol" stundarhátt með meðalmiklum áhuga tekur 0,1 úr sekúndu. Að segja "LOL!" hátt og snjallt með miklum áhuga tekur hinsvegar 0,5 sekúndu. Gert er ráð fyrir að 10% hláturs sé "LOL!" hlátur og 90% hláturs sé "lol" hlátur. Það má því segja að meðal"lol"ið taki um 0,14 sekúndur.
Samkvæmt Hagstofu Íslands voru meðaltekjur íslendinga 272.400 krónur á mánuði og meðaltímafjöldi unnir á mánuði um 198,77. Meðaltímakaupið er því rúmlega 1.370 krónur.
Alls eyða íslendingar um 3.008 klukkustundir á dag í hlátur ((270.750 * 10 sekúndur * 4 hlátursstundum)/(60 (fyrir mínútur)*60 (fyrir klukkustundir))).
Alls myndu íslendingar eyða um 42 klukkustundum í hlátur ef "lol" yrði notað. Mismunurinn, 2.966 klukkustundir yrðu notaðar í að vinna vinnuna sína.
Íslendingar gætu því grætt 4.063.420 krónur á dag (tímakaup * sparaðar klukkustundir á dag) með því að skipta stjórnlausum hlátri yfir í "lol", sem gera 1.484.164.155 krónur á ári eða vel yfir milljarð króna.
Ég mæli með því að stjórnvöld taki þessa hugmynd mína upp á arma sína og leggi bara brotabrot af þessari upphæð, segjum 200 milljónir króna, inn á reikning hjá mér (nr. 175-26-1977 kt 2807784439).
Djók.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.