Í kvöld vann ég til 21:30 eða þangað til hnéin gáfu sig, við mosareitingu í skattstofugarðinum. Þegar raka átti svo saman mosanum hafði ég eitthvað misreiknað mig og mosi í amk 20-30 poka var niðurstaðan. Ég henti því frá mér hrífunni og hefði eflaust fengið mér að reykja ef ég stundaði þann viðbjóðslega og ósmekklega sið.
Allavega, 13 tíma vinnudegi lokið og ég peningalega hamingjusamur ef ekki væri fyrir að LÍN greiddi mér rúmlega 70 þúsund krónum minna út en ég bjóst við og þeir höfðu lofað. Það er allt í lagi, VISA heldur lífi í mér og frábær þjónusta landsbankans (engin kaldhæðni).
Á morgun fer ég keyrandi með pabba til Reykjavíkur þar sem ég hyggst verja helginni. Ástæðan er sú að þar dvelur nú bróðir minn, Styrmir, með konu sinni, Lourdes, og barni, Kristjáni Frey. Þar sem ég hef aldrei séð frænda minn í persónu fannst mér hentugt að kíkja á hann þrátt fyrir augljóst peningaleysi.
Ef ég skrifa ekkert á sunnudaginn hef ég að öllum líkindum farist í hræðilegu flugslysi.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.