föstudagur, 17. október 2003

Þegar enn einu kvöldinu hefur verið eitt heima án þess að gera nokkurn skapaðan hlut er ég tilneyddur til að líta til baka og sjá að í líf mitt vantar bráðnauðsynlega sjálfrennireið. Eins og svo oft áður ákveð ég því að draga saman kosti og galla viðkomandi umhugsunarefnis, í þessu tilviki því að vera með bifreið í Reykjavík.

Kostir:
1. Ég þyrfti ekki að bíða úti hvern morgun eftir strætó eins og versti reykingarmaður.
2. Ég kæmist til vina minna sem búa hér og þar í Reykjavík/Kópavogi/Hafnarfirði og víðar. Ég einfaldlega rata ekki þangað með strætó.
3. Ég gæti sótt pizzur og sparað mér hellingspening í "sæktuhelvítispizzunasjálfur" tilboðum pizzustaða bæjarins en þannig er hægt að fá pizzur á allt að 1000 krónur, hvaða stærð sem er.
4. Stelpur líta á stráka sem eiga bíl, ekki stráka sem taka strætó, nema þeir séu óþverrar þá eru allar dyr opnar.

Ókostir:
1. Bifreiðagjöld = kr. 5.000 rúmar.
2. Tryggingagjöld = kr. 30.000 rúmar.
3. Bensínkostnaður = amk kr. 15.000 á mánuði.
4. Viðgerðarkostnaður = áætlaður ca kr. 30.000 á ári.
5. Dekkjakostnaður = að meðaltali kr. 10.000 á ári.
6. Kostnaður við að kaupa bílinn.
7. Þurfa að skutla vinum út um allt.
8. Ég rata ekkert í Reykjavík og þess vegna væri bíll óþarfi.

Ég met vini mína, pizzur og það að sleppa við strætó mikils en ekki meira en þessar fjárhæðir. Ég held því áfram að taka strætó, borða skyr og gera ekkert á kvöldin og um helgar, nema læra auðvitað.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.