föstudagur, 8. ágúst 2003

Ég braut blað í sögu minni í gær þegar ég leigði mér spólu á fimmtudagskvöldi. Eitthvað hljóp í mig og ég ákvað að ganga af göflunum. Þar sem ég er algjörlega laus við fordóma (amk kvikmyndafordóma) þá varð 'Star trek: Nemesis' fyrir valinu. Myndin fjallar um áhöfn geimskips sem lendir í hatrammi baráttu við klón skipstjóra góða fólksins. Þetta klón er í forsæti skapstórra geimvera en áætlun þeirra felur í sér slæmar afleiðingar fyrir góða fólkið, að því er virðist.
Myndin er hörkufjörug og merkilega vel leikin. Hasarsenurnar eru samt, eins og áður, mjög klunnalegar og klaufskar, sem gerir myndina raunverulegri fyrir vikið, jafn fáránlega og það hljómar. Tom Hardy leikur vonda kallinn ótrúlega vel og það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni enda þarna kominn hörku leikari sem á framtíðina fyrir sér (Þess má geta að ég sagði það sama um Reese Witherspoon eftir að hafa séð Fear 1996).
Myndin er stórskemmtileg og vel gerð að mér sýndist. Þrjár stjörnur af fjórum.

Hér eru nokkur svör fyrir fólkið sem er of 'kúl' til að leigja sér svona myndir, hvað þá hafa gaman af þeim.
1. Já, ég leigði mér þessa mynd í alvöru.
2. Nei, ég er ekki startrek/starwars viðundur.
3. Nei, það ruglar ekki hárgreiðslunni að horfa á hana.
4. Nei, ég skammast mín ekki.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.