föstudagur, 18. júlí 2003

Eftir áralangar rannsóknir á því hvaða aðstæður séu leiðinlegast að upplifa hef ég komist að niðurstöðu. Ég fór í rannsóknarferð í sundlaug Egilsstaða í gær til þess eins að synda smá, jafnvel fá smá lit og auðvitað að reyna að upplifa eitthvað leiðinlegt. Þegar ég er á leið í sturtuna, haldandi á handklæði í annarri og risa head n' shoulders brúsa í hinni, hitti ég mann sem ég nafngreini ekki en þekki þó nægilega mikið til að heilsa en vona að hann fari ekki að spjalla eitthvað því smátal er með því leiðinlegasta sem ég upplifi. Að sjálfsögðu fer hann að spjalla um daginn og veginn og þegar örlítið er liðið á samtalið átta ég mig á því að mér líður alls ekki svo vel og að þetta sé eitt af því ömurlegasta sem ég hef upplifað; að spjalla við mann þar sem við stöndum báðir algjörlega naktir, hann á leið úr sturtu og ég í sturtu. Ég var fljótur að nota orðið "jæja" og bæta svo einhverri afsökun við til að sleppa í sturtuna. Allt í lagi að standa í sturtunni og spjalla eða vera að þurrka sér því þá hefur maður eitthvað að dunda sér við en á leið í sturtu vil ég ekki tala við neinn.

Ég lét reiði og biturð bitna á vatninu og synti eins og búrhvalur þennan dag.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.