Undanfarið hef ég tekið eftir því að ég er að missa að meðaltali um 120 hár af höfðinu daglega. Í kjölfarið fór ég að velta því fyrir mér hvort hármagnið á höfðinu mínu sé að minnka og hvort ég ætti að nýta tíma minn í eitthvað annað en að telja hár. Ég afskrifaði það síðarnefnda strax en vildi fá svar við því hvort hárið væri að minnka.
Ég hljóp í Excel og setti upp eftirfarandi forsendur:
Venjuleg dökkhærð manneskja er með um 100.000 hár á höfði (heimild: wikipedia.org). Hárgreiðsludömur hafa margar talað um að ég sé með þykkt hár. Ég geri ráð fyrir að engin hárgreiðsludama sé daðrandi glyðra og því ljúgi þær ekki. Ég geri því ráð fyrir 10% aukahárum eða 110.000 hár á höfði mínu.
Meðalvöxtur á mánuði fyrir höfuðhár eru 15 mm (heimild: wikipedia.org). Það gera 0,4928 mm í vöxt á dag.
Meðallengd háranna á höfðinu mínu er 7,5 cm.
Það má því reikna út að hár mitt vaxi samtals um 5.421 cm á dag (110.000*0,4928mm). Það gera um 723 meðalhár.
Svarið er því:
Heildarmagn hára er ekki að minnka. Á meðan ég missi 120 hár á dag er að vaxa jafngildi 723 nýrra hára. Nettó er ég því að hagnast um rúmlega 4.500 cm af hári á dag. Heppinn ég.
Ef fer fram sem horfir með hárlosið, og ef við gefum okkur að ekkert nýtt hár vaxi þar sem þessi 120 á dag falla, má gera ráð fyrir að ég verði orðinn alveg nauðasköllóttur þann 23. júní 2010 klukkan 16:00. Það verður þó að teljast ólíklegt, þar sem enginn forfaðir minn hefur verið sköllóttur, svo vitað sé til.
Ég get því haldið áfram að gera grín að sköllóttum áhyggjulaus.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.