Mikið er gott að sumarið sé komið. Ekki vegna veðursins, enda breytist veðrið ekkert í Reykjavík við sumarkomuna, heldur meira vegna þess að þá get ég lokað þeirri brandaraseríu sem ég hóf í haust, þegar ég var tiltölulega nýbyrjaður í skólanum. Upphaflegi brandarinn var eitthvað á þessa leið og átti sér stað þegar ég og Óli vorum að ganga úr skólanum eina hánótt þegar runnar bæjarins voru nýbúnir að fella lauf; þá segi ég og bendi á nakinn runna "Haustmælingatækið virkar!" við mikil hlátrasköll viðstaddra.
Það var þá sem hugmyndin vaknaði um þrjá framhaldsbrandara sem ég hef nú lokið við að frumflytja. Í þeim var sömu formúlu beitt en útkoman allt önnur. Ég skipti semsagt út haustinu og setti ýmist vetur, vor eða, nú síðast, sumar inn í staðinn. Síðasta brandaranum, sem fjallaði um sumarið, var beðið með óþreyu og gríðarlega fagnað af viðstöddum fyrir utan HR í morgun þegar ég kom í skólann og runninn farinn að sýna lauf.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.