Ég hélt að yfirgengileg þjóðremba Jay Leno gæti ekki ekki stuðað mig lengur en silfurhærða erkifíflinu tókst að senda mig brjálaðan í háttinn í fyrradag. Hann er að vísu ekki það mikill bógur að hann geti raskað geðró minni einn síns liðs en reyndist það hægðarleikur með aðstoð Dennis Miller, sem er víst skemmtilegasti þáttastjórnandinn í landi hinna frjálsu og hugrökku.
Kjafturinn á þessum aufúsugesti var með slíkum ólíkindum að ég varð að horfa á hann til enda bara til þess að fullvissa mig um að hann væri ekki að grínast. Geroge W. Bush er frábær að hans mati og hann hefur aldrei verið stoltari af því að vera Kani en þegar hann horfir á sprengjuregnið í Írak í sjónvarpinu.
Fréttamaðurinn Peter Arnett, Michael Moore og allir aðrir sem leyfa sér að andmæla Bush eru fávitar og voru úthrópaðir sem slíkir með þvílíkum lýsingarorðaflaumi að maður gapti. Leno skríkti yfir þessu öllu saman og salurinn klappaði og blístraði.
Ég er lítið fyrir ritskoðun en fer að hallast að því að það sé orðin spurning um siðferði að endurvarpa Jay Leno inn á heimili hugsandi fólks. Leno er hættulegt fífl og það er þessi Miller líka. Hann kann ekki einu sinni að klæða sig og mætti í jakkafötum og hvítum sokkum! Það má segja ýmislegt um þessa menn en hvað getur maður sagt um fólk sem klær að stríðsbröndurum manna í hvítum sokkum?
Þórarinn Þórarinsson, ég hylli þig.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.