mánudagur, 31. mars 2003

Þessi dagbók er mögnuð. Eftir að hafa lesið megnið af því finnst mér ég vera stórkostlega skemmtilegur.
Í gærkvöldi sá ég 3ja stjörnu mynd (að mínu mati) sem nefnist á frummálinu 'Maður eins og ég'. Jón Gnarr, Þorsteinn Guðmundsson og Sigurður Sigurjónsson fara á kostum í þessari skemmtilegu mynd um þrítugan mann (Gnarr) sem verður ástfanginn af gellu frá Kína (Stephanie Che). Leikurinn er óaðfinnanlegur, söguþráðurinn lítill en heillandi og karakterarnir stórskemmtilegir. Leikstjórinn er Róbert I. Douglas, sá sami og gerði 'Íslenski draumurinn', sem er meistaraverk og frekar svipuð þessari að mörgu leiti. Ég hlakka til að sjá næstu mynd eftir hann.

sunnudagur, 30. mars 2003

Íslendingar töpuðu glæsilega í gær gegn Skotum í fótbolta. Ég ætla vona að þetta sanni mál mitt um að Atli Eðvaldsson ræður ekki við verkefni af þessari stærðargráðu, þeas að þjálfa landslið og að hann verði rekinn. Í stað hans ætti að koma Guðjón Þórðarson. Hann er að öllum líkindum hræðilega leiðinlegur maður, miðað við að hann fékk ekki starfið áfram hjá Stoke þrátt fyrir góðan árangur, en hann kann að þjálfa. Til gamans má geta þess að ég veit ekkert um fótbolta en veit þetta þó.
Þessi dagbókarfærsla var í boði Eimskipa.
Ég er ekki frá því að dagbókarfærslubólan (bloggarar) sé að hjaðna. Margir eru smásaman að minnka við sig og munu að öllum líkindum tilkynna að þeir séu hættir innan tíðar. Ég mun þó halda áfram þangað til ég hef ekkert að segja.

laugardagur, 29. mars 2003

Þetta er stórkostlega fyndið. Betra að taka það fram að þetta kemur frá síðu Helga bróðir og er smá myndskeið sem tekur smástund að hlaðast, munið að hafa hljóðið á.

Annars hefur ýmislegt gerst um helgina. Í dag keypti ég mér nýja sturtusápu og að sjálfsögðu prófaði ég hana svo áðan. Ekki laust við að þetta sé sú besta hingað til, með hunangslykt og allt. Svo fékk ég mér pylsu með öllu og svala. Helgin náði þó hámarki áðan þegar ég sendi sms.
Nánast öll helgin framundan og ég einn heima í kjallaranum það sem eftir er af henni. Að sjálfsögðu notfæri ég mér það og geng um nakinn.

Svo vildi ég ítreka fyrir fólki að kjósa rétt í kynkönnuninni, hér.

föstudagur, 28. mars 2003

Í lok febrúar ákvað ég að greiða fyrir sýn þar sem leikur með Utah Jazz var að byrja. Þá sagði mér kelling í þjónustuverinu hjá norðurljósum að ég gæti borgað fyrir 1/4 mánaðarins og fengið að horfa á leikinn. Mér fannst það helvíti hart, því aðeins 2 eða 3 dagar voru eftir af áskriftarmánuðinum en ég lét mig hafa það, ca 900 krónur fyrir góðan sigurleik Utah Jazz. Ég spurði aftur og aftur hvort þetta yrðu þá ekki bara 900 krónur og hún sagði svo vera. Nú fæ ég hinsvegar visa reikninginn þar sem stendur að ég hafi greitt 4.300 krónur rúmar. Þá átti stelpuskjátan hjá ÍÚ að hafa sagt að ég þyrfti að borga alla næsta mánuðinn líka. Ég hefði aldrei nokkurntíman gengist við því. Talaði svo við sömu stelpu í hádeginu og þá sagði hún að svona væri þetta bara. Auðvitað tók ég þá röksemdafærslu gilda, tussan sem ég er og rúmar 3600 krónur farnar í vaskinn því myndlykillinn er hjá móður minni.

Þar með er hafið viðskiptabann mitt við ÍÚ, en fjöldi fyrirtækjanna sem ég get verslað við fer óðfluga fækkandi. Ég stend mig enn í því að versla ekki bandarískt.
Ég vorkenni þessari konu meira en orð fá lýst. Bara svipurinn á henni er nóg til að fá mig til að gráta. Vonleysið í augum hennar er algjört og í raun ekkert fyrir hana að gera því alltof seint er að bjarga henni. Hugsið ykkur ef t.d. systkini ykkar væri svona og hversu mikla kvöld það þyrfti að ganga í gegnum.

fimmtudagur, 27. mars 2003

Það gleður mig alltaf þegar allt sem maður skrifar, hvort sem það er langur tölvupóstur eða löng dagbókarfærsla, hverfur án þess að hægt sé að vista það. Allavega, ég var búinn að rita niður talsvert um Nirvana og hversu góðir þeir voru. Talsvert er til af lögum sem aldrei hafa verið gefin út, þar á meðal lagið Verse chorus verse, sem var einmitt vinnuheiti á In Utero disknum. Kolla gaf mér m.a. magnaðan skrifaðan disk með Nirvanalögum sem aldrei hafa verið gefin út. Og nú ætla ég að gefa ykkur Verse chorus verse og um leið ræna hóruna Courtney Love. Hægrismellið hér og veljið 'save as' til að eiga lagið eða vinstrismellið og hlustið. Hér getið þið svo lesið textann. Kurt Cobain er sárt saknað.
Í gær var brotið blað í sögu smáauglýsinga þegar birtist auglýsing frá piltungum af héraði í menningartímaritinu Dagskráin, sem er gefin út af Héraðsprenti. Gagnrýnendur keppast við að lofa auglýsinguna og hafa setningar eins og "Epískt stórvirki" og "Fram með höfundinn!" verið látnar flakka um umrædda auglýsingu en hún hljómar eitthvað á þessa leið:

Íbúð óskast

4 ungir, reglusamir, snyrtilegir og samviskusamir piltar leita að íbúð á Egilsstöðum eða í Fellabæ. Sími 471 3808 eftir kl 16:00, 470 1308 fyrir kl. 16:00 eða 868 8520.


Myndatökumaður nettímaritsins finnur.tk var veikur í gær og gat ekki mætt til að taka myndir af höfundum við opið hús þeirra, þar sem gestir og gangandi óskuðu þeim til hamingju með meistaraverkið. Myndatökumaðurinn hefur verið rekinn og munu myndir birtast síðar í dag ásamt vönduðu einkaviðtali.

miðvikudagur, 26. mars 2003

Þá er loksins komin ný könnun. Þessi er flókin, munið að athuga vel áður en þið svarið.

Smellið hér til að taka þátt.
Í dag á besti point guard (í körfubolta) allra tíma afmæli. Hann er hvorki meira né minna en 41s árs og er enn að spila með góðum árangri. Hann heitir John Stockton og ég dáist að honum. Stockton, ef þú lest þetta: Til hamingju með afmælið.

þriðjudagur, 25. mars 2003

Í kvöld sat ég í makindum mínum og horfði á Boston Public eftir erfiða körfuboltaæfingu þegar hinir margrómuðu Quarashi fóru að hljóma með lagið Stick'em up undir einu lykilatriði þáttarins en þar rúntaði hr. Senate um stræti Boston. Þetta minnir mig einmitt á það þegar Sigur Rós áttu lag í C.S.I. þáttunum hér um árið við mikinn fögnuð. Báðir þættirnir eru í uppáhaldi hjá mér.

En að öðru, og ég lofa að þetta er í síðasta sinn sem ég kvarta yfir auglýsingum. Áðan sá ég verstu og leiðinlegustu auglýsingu allra tíma. Hún kemur frá Pizza hut og er þannig: Einhver er undir handklæði, og fólk dregur strax þá ályktun að manneskjan sé yfir dalli fullum af heitu vatni til að losa sig við kvef. Þá hringir bjalla og kelling rís upp en þá er hún yfir heitri pizzu. Það er plottið. Þá kemur númerið á staðnum og merki hans en eftir það, til að fullkomna ömurlegheitin, kemur kellingin aftur og fer yfir pizzuna. Ótrúlegt hvað fólk getur verið ófrumlegt.

Til að vega á móti þessu nöldri þá vil ég hrósa (sennilega) sænskri auglýsingastofu fyrir Magic (orkudrykkinn) auglýsinguna þar sem dauðþreyttur maður er í vinnunni að leika sér að skjóta pappírsskotum í glas. Þá fær hann sér Magic og heldur áfram að skjóta í glasið nema hann sprengir glasið í tætlur með pappírsskotinu. Þessi hugmynd, tónlistin og svipurinn á leikaranum gera þessa auglýsingu að minni uppáhalds. Með þessum orðum kveð ég auglýsingatal mitt og held áfram með líf mitt.
Mal Kennedy er kominn aftur í Neighbours eftir áralanga fjarveru. Þetta sá ég í hádeginu þegar ég samdi smáauglýsingu með Bergvini fyrir dagskránna. Þetta minnir mig á það þegar Harold Bishop kom aftur til Madge eftir nokkur ár í burtu. Að vísu átti Mal aldrei að vera dauður. Neighbours hafa fangað mig aftur.
Þetta er mögnuð lesning. Ég skora á alla að lesa þetta auk þess sem þið fáið 4 rokkstig fyrir ef þið klárið hana.

mánudagur, 24. mars 2003

Aðdáendur þessarar síðu halda áfram að senda inn myndirnar. Þetta fer að verða pirrandi, en venst svosem.
Ég gerði mér lítið fyrir í gærkvöldi og eldaði mjög flókinn og erfiðan en umfram allt ódýran rétt fyrir mig og bróðir minn. Ekki nóg með að ég eldaði spaghettíið alveg sjálfur heldur hafði ég dásemdar meðlæti á borðum eins og tómatsósu og salt. Með þessu drukkum við splunkunýtt, íslenskt vatn. Samtals kostaði þessi máltíð 48 krónur: 19 krónur fyrir spaghettíið, 27 krónur fyrir tómatsósuna og 2 krónur fyrir saltið. Drykkjarvatnið var ókeypis og heita vatnið sem notað var við uppvaskið innifalið í leigunni.

Og á léttari nótur, íslenski fáninn var brenndur í gær í danmörku. Talið er að það tengist ekki atburðunum 11. september.

sunnudagur, 23. mars 2003

Finnst ykkur þetta fyndið? Það finnst bandaríkjamönnum ekki. Þeir lokuðu þessum tengli þegar ég reyndi að vera fyndinn á Utah Jazz spjalli. Hér getið þið séð bannið. Ég er Utahfan. Ótrúlegt hvað þeir eru miklar kellingar oft.Hef frá afskaplega litlu að segja. Helgin búin að vera sallaróleg eins og alltaf. Mun sennilega lítið skemmta mér næstu helgar því ég er nánast peningalaus.

Fékk mér heimilisbankann um daginn og sá mér til skelfingar visa reikninginn sem er á leiðinni. Tók mig til og reiknaði út leyfilega daglega eyðslu ef ég ætla mér að spara einhverjar krónur á mánuði en hún er ca 750 krónur. Látið ekki koma ykkur á óvart ef þið sjáið mig nakinn fyrir utan kaupfélagið að betla.
"Íslendingar" m.a. bera ábyrgð á þessu. Skoðið svo þetta meistaraverk.

laugardagur, 22. mars 2003

Final Fantasy: the spirits within sem er tölvugerð mynd. Ég hef sjaldan séð jafn vel gerða mynd, enda er hún ein stór tæknibrella. Söguþráðurinn er svolítið bull en það má alveg horfa á þetta. Hún fær hjá mér 2 stjörnur, aðallega fyrir það hversu vel hún er gerð. Það má til gamans geta þess að ég náði að finna út hverjir lásu inn flestar raddirnar án þess að kíkja á netið. Ég er hetja.

Byrjaði svo á því að sniðganga bandaríska matvöru í gærkvöldi. Vona að sem flestir geri eitthvað svipað til að mótmæla yfirgangi þeirra.
Mér finnst frekar fyndið þegar samkynhneigt fólk vill fá viðurkenningu presta og trúaðs fólks. Ég hef alls ekkert á móti hommum og lesbíum, biblían (bókin sem öll trú á guð er byggð á) segir margoft að samkynhneigð sé viðbjóður og að fólk skuli deyja fyrir það. Af hverju ætti samkynhneigt fólk að vilja vera hluti af svona fordómafullu kjaftæði? Af hverju ætti fólk yfir höfuð að vilja það? Ég hef ekkert á móti trúuðu fólki heldur, fólk má gera það sem það vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Mér finnst bara að fólk mætti aðeins spá meira í þessa trú og að þegar öll trúin er byggð á einni bók, þá má lesa bókina og spá aðeins í hana. Þið gætuð til dæmis byrjað hér. Góða skemmtun.

föstudagur, 21. mars 2003

Í fréttunum í gær var sagt frá stórkostlegum mótmælum í miðbæ Reykjavíkur. Á stjórnarráðshúsið var slett rauðri málningu, sem tákn um blóðið sem Davíð Oddsson & co er að aðstoða við að úthella. Því næst birtust ca 20-30 ungt fólk útatað í svínablóði og lögðust þau fyrir framan húsið og létu sem þau væru dauð. Glæsilegt framlag hjá þessum leiklistarhópi og hefði ég verið í Reykjavík vildi ég gjarnan hafa tekið þátt í þessu ásamt því að hafa mætt á Lækjatorg kl 17:30 en þangað mættu á annað þúsund manns þrátt fyrir rigningu og hvassviðri.

fimmtudagur, 20. mars 2003

Í dag fékk ég mér pylsu og kók í shellinu. Í þeirri ferð tók ég eftir einhverju sem kallast 'Poppkort', en þau geturu fengið ef þú kaupir 1/2 lítra af pepsí á 200 krónur aðeins. Á þessum poppkortum eru myndir af gríðarlegum stórstjörnum íslensks poppiðnaðar. Er það ekki merki um viðbjóðslega peningagræðgi þegar stór fyrirtæki á borð við þetta eru byrjuð að markaðssetja myndarusl af 'tónlistarmönnum' fyrir litla krakka af slíkri áfergju? Ef krakkar gleypa við þessu þá eigum við heimskustu krakkavitleysinga Evrópu. Og hvað er með 'tónlistarmennina' sem taka þátt í þessari vitleysu? Halda þeir að þetta sé rosalega kúl, að græða á smábörnum? Ég hræki á þetta og vona að ekki nokkur manneskja kaupi þennan viðbjóð.

En allavega, með pylsunni keypti ég forlátt súkkulaði og braut þar með nammibindindi sem ég byrjaði á í gær eftir vinnu sem er svosem ekki í frásögu færandi nema fyrir það að súkkulaðið var hálft í umbúðunum. Verandi tussa sem lætur vaða yfir sig, sagði ég ekkert og át þetta bara.
Ég sendi öllum þeim sem þetta lesa mínar innilegustu samúðarkveðjur þar sem viðbjóðarþjóðin bandaríkin hefur hafið fjöldamorð í Írak. Það er engin afsökun fyrir þessu og þeir sem eru þessu hlynntir vona ég að deyji hræðilegum dauðdaga. Áfram Írak!

En að öðru; mikið skelfilega finnst mér Norah Jones leiðinlegur tónlistarmaður. Hún virðist bara velja sér leiðinleg lög til að syngja, nema auðvitað lögin séu góð en hún nær að gera þau svona leiðinleg. Hitt er svo annað mál að hún er fönguleg og því vil ég gjarnan sjá hana feta sig áfram í leiklistinni í myndum á borð við 'Return of the cocks' og 'Norah does Dallas'. Þannig gæti hún mögulega grætt pening á mér.

miðvikudagur, 19. mars 2003

Fór á körfuboltaæfingu í gær, blásaklaus sveitastrákurinn, haldandi að ég geti eitthvað í körfubolta. Annað kom á daginn því ég held ég hafi ekki hitt úr einu einasta skoti sem ég tók. Það hefur svosem gerst áður en það sem gerði þetta sérstakt var að þessi lægð mín ætlaði engan endi að taka. Ég frákastaði ekkert, náði illa að spila vörn og hvert skotið á fætur öðru hafnaði langt frá hringnum. Ég fann hvernig sjálfsálit mitt minnkaði með töpuðum boltum. Ekki nóg með að ég hafi ekki getað neitt í leiknum heldur eftir að allir fóru að spila með Old Boys nema ég, hélt ég áfram að geta ekkert. Sjaldan hef ég verið í jafn vondu skapi um ævina.
Það var einmitt þá sem ég fann Jesú. Nú þarf ég ekki að vera góður í körfubolta til að finnast mér ég vera æðislegur.

þriðjudagur, 18. mars 2003

Þriðju vikuna í röð er sýningu á nýrri seríu af Boston Public frestað af skjá einum. Í þetta sinn var sýndur einhver gamansjúkrahúsþáttur með blinda kallinum úr contact í aðalhlutverki ásamt John Hannah úr the mummy myndunum og Leslie Stefanson, vestur Íslendingnum alræmda, í aukahlutverki. Skrítið að sjá hana í aukahlutverki í lélegum þáttum eftir að hún varð heimsfræg með stórkostlegri túlkun sinni á dauðri konu í The Generals Daughter fyrir nokkrum árum. En ég er víst kominn út fyrir efnið. Það að skjár einn frestar sýningu á Boston Public svona oft sannar hið margkveðna að ekki er hægt að treysta neinu sem er ókeypis á þessari drullukúlu sem kallast jörð. Sem dæmi má taka þetta blogger dót sem er mjög oft niðri eða er gríðarlega lengi að hlaða síðurnar (eins og þessa dagana einmitt) ásamt haloscan ummælakerfinu sem er hér fyrir neðan en virka ekki nema annan hvern dag. En svona er þetta, fyrst maður borgar ekkert þá er í lagi að það sé þjösnast á okkur.
Hatur mitt á bandaríkjamönnum náði nýju stigi í nótt þegar ræða Bush var sýnd á stöð 2. Ég entist reyndar ekki meira en mínútu þar sem hann höfðar meira til snarheimskra bandaríkjamanna. Nokkrar spurningar komu upp í koll mér við að hlusta á hann í þessa mínútu:

1. Eru Bandaríkin ekki meiri friðarspillar en Írak ef þeir ráðast á þá að fyrra bragði?
2. Hvað í ósköpunum hafa Írakar gert til að verðskulda fjöldamorð og að olía þeirra sé tekin?
3. Er það ekki svolítið haldhæðni að þeir lofi Írökum lýðræði þegar lýðræði er ekki beitt í þessu máli, þeas langflestir vilja alls ekki "stríðsátök" (lesist fjöldamorð)?
4. Af hverju eiga bandaríkjamenn meiri rétt á því að eiga gjöreyðingarvopn en Írakar, eða einhver önnur þjóð?
5. Heldur Bush og hans stjórn að allur heimurinn trúi þessu kjaftæði þó svo að nokkrir villimenn í bandaríkjunum geri það?

Það sorglega við þetta er að það er ekkert hægt að gera í þessu. Bandaríkjamenn fá að vaða uppi með vopnum sínum. Þeir einu sem eru að gera eitthvað almennilegt eru Frakkar, Þýskarar og Rússar, sem ég ber gríðarlega virðingu til þessa dagana. Sá Halldór Ásgríms á stöð 2 í gær, reyna að afsaka stuðning sinn við Bush. Aldrei nokkurn tíman mun ég kjósa flokk sem styður á einhvern hátt við árásir þessar. Ég er ekki politískur, vil helst bara láta almenna skynsemi ráða ferðinni.

mánudagur, 17. mars 2003


Varúð, ekki fyrir viðkvæmt/ungt fólk. Ekki smella á hlekkina ef þið eruð undir 16 ára aldri.


Ég var að vafra í sakleysi mínu á netinu rétt í þessu þegar ég rakst á þessa mynd (Varúð! Viðbjóður) af manni, sennilega glysrokkara frá níunda áratugnum, berum að neðan og viti menn, það vantar á hann typpið! Frekar fyndið en um leið svolítið óhugnarlegt. Ótrúlegt hvað sumt fólk gengur í gegnum um ævina. Þessi virðist hafa lent í hræðilegu slysi og mun eflaust aldrei jafna sig.

Svo rakst ég einnig á þetta á sömu síðu. Skemmtileg síða sem fer yfir Íslenska stafsetningu á síðum landans. Gaman að segja frá því að hjá mér var ekki með eina stafsetningarvillu.
Það er ýmislegt að gerast hjá mér þessa dagana og vikurnar. Nýbúinn að fá mér "nýjan" bíl, þarf að flytja úr kjallaranum innan 2ja mánaða og mun að öllum líkindum fara suður í haust. Einnig mun ég, í fyrsta sinn í 5 ár, ekki vinna á heilsugæslunni í sumar sem ritari heldur hér á skattstofunni sem fulltrúi. Lífið leikur við mig og ekki sakar að það hefur verið amk 10 stiga hiti síðustu daga.

Skemmtilegt að segja frá því að ég hef ekkert að segja núna.

sunnudagur, 16. mars 2003

Rétt í þessu var ég að fá þá tilkynningu að við í kjallaranum á Tjarnarlöndum 18 verðum að vera fluttir út 15. maí næstkomandi vegna þess að fjölskyldumeðlimur húseigandans ætlar að flytja inn. Ef einhver veit um íbúð á lausu, látið mig vita í gegnum e-mail. Ágætt að fá þessar fréttir því þetta gefur mér spark í rassinn í að finna mér aðra íbúð. Ætlaði að vera löngu fluttur héðan. Þarmeð er Tjarlarlandatímabilinu lokið, sem hefur nú staðið í ca þrjú og hálft ár, með hléum.

Þetta gerði mig dapran í örskamma stund, eða þar til ég leit á þessa mynd hér. Hef hana alltaf innan handar til að koma mér í gott skap.
Ég vona að sérfræðingar CNN séu ekki á betri launum en ég. Ef svo er, þá er ég hálfviti.Sá loksins endinn á Signs um daginn eftir að hafa horft á fyrsta klukkutímann einn fyrir ca mánuði og stoppað myndina þegar frekar drungalegt atriði byrjaði. Kemur á óvart hversu róleg hún er en um leið spennandi. Fín mynd sem fær hjá mér tvær og hálfa stjörnu af fjórum.

Þessi mynd minnti mig á X-files þættina en þeir eru, að því er virðist, alveg horfnir. Kannski svaf ég bara yfir mig og missti af síðustu þáttunum. Væri kannski einhver til í að segja mér frá því hvernig þetta endaði allt? Það síðasta sem ég sá var að Scully eignaðist barn. Engin lausn var í sjónmáli á geimveruvandanum og svo framvegis. Stöð 2 á skilið að fá bylmingshögg í magann fyrir að kaupa þessa þætti af RÚV og hætta svo bara að sýna þá. Það sama má segja um Simpson fjölskylduna sem sést ekki lengur hjá þeim. RÚV ætti að taka sig til og versla þessa þætti aftur yfir.

laugardagur, 15. mars 2003

Það eru talsverðar líkur á því að ég verði staddur í Reykjavík í haust, að kljást við einhverskonar nám. Óli Rúnar var nefnilega að hringja í mig í dag og bjóða mér að búa hjá þeim á Tunguvegi 18 í haust. Ég vona að ég hafi ekki verið að misskilja hann. Þetta er talsvert tilhlökkunarefni af því að þeir sem þar búa eru öðlingar sem hægt er að skemmta sér með. Ég mun þó sakna austurlandsins gríðarlega og peninganna. Þetta er samt enn bara grófar áætlanir hjá mér, allt sumarið eftir að líða, ég eftir að sækja um í skóla/vinnu og svo framvegis. Þetta hefur það líka í för með sér að ég get spilað keilu áfram, eitthvað sem ég hef saknað síðan ég bjó þarna síðast.

En að allt öðru. Til hamingju Reyðfirðingar með álverið ykkar. Nú skulum við vona að fólkið fari að streyma þangað.
Það lítur út fyrir að allskonar efni af þessari síðu minn sé að birtast hér og þar á netinu. Myndin hér að neðan af brókuninni hefur sést á batman.is og undirskriftarlistinn er kominn á bæði batman.is og hugi.is, undir tónlist.

Bara rólegur dagur annars. Fékk mér að borða í Shellinu með Björgvini bróðir, Eika frænda og Frissa frænda. Björgvin bað um frelsiskartöflur með hamborgaranum og fékk myndarlegt högg fyrir.

föstudagur, 14. mars 2003

Hef verið að dunda mér við að setja saman myndasögu úr lokahófinu síðustu helgi og ég held að ég sé kominn með viðunandi útkomu. Hér getið þið smellt og séð. Eða jafnvel bara litið á myndina hérna fyrir neðan (eða smellt á hana fyrir mun stærra eintak)A party gone terrible wrong myndu bandaríkjamenn segja
Þeir sem ekki hafa hatað Bandaríkjamenn hingað til hafa nú góða ástæðu. Þeir eru endurnefndu 'Franskar kartöflur', núna heita þær 'Frelsiskartöflur'. Þetta gera þeir til að sýna andúð sína á Frökkum sem stöðva, réttilega, fjöldamorð í Írak. Fyrir utan hversu heimskulegt er að nefna kartöflurnar eftir frelsi, þá eru þessar kartöflur ekki upprunalega frá Frakklandi, heldur Belgíu. Annað sem stenst illa er að í bandaríkjunum er í raun ekkert frelsi. Þeir tala og tala um frelsi en í raun er fólk handtekið fyrir fáránlegustu hluti, eins og að tjá sig. Um daginn var maður handtekinn í verslunarmiðstöð fyrir að ganga í bol sem á stóð "Give peace a chance" eða "Gefið friði tækifæri". Svona er nú frelsið í hryðjuverkalandinu Bandaríkjunum.

fimmtudagur, 13. mars 2003

Ef þú, lesandi góður, ert með heimasíðu, dagbók eða bara eitthvað á netinu og vilt að ég láti tengil á þig, sendu mér þá e-mail, ummæli eða bara sms og ég skal taka það til umhugsunar. Mjög líklegt er að ég muni bæta þér við í safnið.
Dæmigert. Fór í sjoppu sérstaklega til að kaupa batterí í geisladiskaspilarann sem ég er með í vinnunni til þess eins að getað hlustað á nýja Nick Cave diskinn, Nocturama. Hamaðist svo á diskahulstrinu í ca 5-10 mínútur en hann kemur í svona pappahulstri einhverskonar sem á það til að vera of þröngt fyrir plasthulstrið. Þegar það tekst loksins opna ég hulstrið og átta mig á því að ég gleymdi disknum heima. Björgvin bróðir hlustaði á hann og ég gleymdi því.
Mikið hroðalega er lagið 'Get off' með Dandy Warhols gott lag. Heyrði það fyrst fyrir ca einu og hálfu ári síðan, tók það auðvitað af netinu. Það verður alltaf betra og betra með hverri hlustun. Mæli með því að þið..ehemm...kaupið diskinn þeirra til að heyra það. Ekki taka það af netinu, þó það sé ódýrara. Ég sé eftir að hafa gert það, borgar sig ekki fyrir tónlistarmennina þó það bjargi mér frá gjaldþroti.
Þessa dagan er ca ár liðið síðan ég, Óli Rúnar, Kristján Orri og Hlynur Gauti fórum til Minnesota í hryðjuverkaríkinu Bandaríkjunum til þess eins að sjá forlátan körfuboltaleik, Minnesota Timberwolves gegn Utah Jazz. Þetta var 4ra daga ferð með gistingu og farastjórn Snorra Sturlusonar, íþróttafréttamanns frá Sýn. Alls vorum við 20 sem tókum tilboðinu, sem hljómaði upp á 55.000 krónur fyrir allt nema mat. Margt fyndið gerðist í ferðinni en fyndnast var þó þegar Óli og Kristján ætluðu að pissa utan í vegg í dimmu húsasundi og leynilögregla handtók þá næstum því. Henti bjórnum þeirra og tók ekki afsökunina „We are just from Iceland“ gilda. Brjáluð lögga á ferðinni. Allavega, við spiluðum körfubolta í hótelsalnum alla dagana í nýjum skóm sem við þurftum að kaupa okkur því við höfðum ekki hugmynd um svona fínan sal og tókum því enga skó með. Utah Jazz vann svo leikinn og allir voru kátir með það, nema 18 úr hópnum. Þyrfti að fara að skanna myndirnar inn og sýna ykkur skepnunum. Snorri Sturluson kom skemmtilega á óvart, sagði endalaust af sögum og var verulega skemmtilegur.

Ég efast um að ég fari á næstunni til Bandaríkjanna, er meira að spá í að fara í heimsókn til bróður míns og konu hans í Svíþjóð og jafnvel fara til heitu landanna á sólarströnd. Ég gæti trúað því að það sé gaman, sérstaklega með vinum og kunningjum. Skráið ykkur í ferðina hérna fyrir neðan. Brottfaratími óákveðinn.

þriðjudagur, 11. mars 2003

3 menn eru að horfa á sjónvarp, öskrandi eitthvað óskiljanlegt. Kemur þá kona inn í herbergið og segir tilgerðarlega: „EeeHHH! Eigið þið ekki að vera að æfa??“. Rjúka þá piltarnir 3 upp og rífa upp bolina, sýnandi eitthvað rusltæki sem nötrar þar til spikið á að hverfa og æpa „Við erum að æfa!“. Við þetta kemur undrunarbros einhverskonar á konuna. Þetta er hugmyndin að auglýsingu fyrir Hreysti sem er þarna að vekja athygli á einhverju magabelti. Nú leikur mér forvitni á að vita; getur hvaða hálfviti sem er samið, leikstýrt og leikið í svona auglýsingu og komist upp með það? Jafnvel fá greitt fyrir. Hvaða smekklausi geðsjúklingur hannaði þetta? Án efa versta auglýsing sem ég hef nokkurntíman séð.

Auglýsingin virkaði allavega, fyrst ég er að skrá þetta í dagbókina mína.
Leðjan til Lettlands undirskriftarsöfnunin er komin á flug. Yfir 200 manns með smá vit í kollinum búnir að rita nafn sitt og kennitölu. Ég skulda Batman.is greiða fyrir að birta þetta.

Ég mæli mjög með þessu bloggi hérna, hjá bróðir mínum Helga. Það er hálf óhugnarlegt hvað hann er fyndinn. Auðvitað mæli ég líka með öllum hér til hægri í hlekkjunum en þó sérstaklega Helga. Hann mun koma aftur í dagbókarfærslunar eftir ca eina og hálfa viku.

Þurfti að vera í afgreiðslunni á skattinum í dag, kunnandi ekki neitt. Báðar konurnar sem eru þarna venjulega frá vinnu og ég því neyðarúrræði. Oft spaugilegt að sjá mig reyna að afgreiða fólk sem kom þangað í sakleysi sínu. Ekki koma á skattinn í þessari viku milli 12:00 og 12:30 en þá verð ég víst í afgreiðslunni, kunnandi ekkert.
Ég heyrði lagið Sk8er boy (lesist Skater boy) með Avril Lavigne fyrir allnokkru síðan og mér var brugðið. Þetta er víst talsvert vinsælt lag en það fjallar um ballerínu sem neitar að vera með einhverjum brettakappa sem gengur í skopparabuxum. Sæmilega grípandi lag en boðskapurinn er ekki góður og hálf barnalegur. Þessi brettakappi á (5 árum) síðar að vera orðinn ofur tónlistarstjarna en ballerínan "bara" búin að eignast krakka og einhleyp í þokkabót. Þar hefndist henni fyrir að hafa neitað honum því að eignast barn er víst hræðilegt og að vera ofur tónlistarstjarna er það besta sem til er. Ekkert er talað um að brettakappinn sé skemmtilegur eða neitt þannig. Peningar skipta öllu máli. Hér getið þið lesið textann.

Avril Lavigne er samt mjög girnileg en það er önnur saga.
Ég hef loksins bætt við myndum á myndasíðuna frá lokahófi Körfuboltadeildar Hattar. Mjög skemmtilegt teiti, þar sem piltungur var brókaður svo um munar. Hann var klæddur úr brókinni án þess að hann þurfti að fara úr buxunum. Kíkið á myndirnar frá brókunni hérna.

Annars hef ég eytt deginum í að uppfæra allar myndir upp á nýtt þar sem serverinn, sem ég leigi pláss af, hrundi. Tók mér svo pásu og fór í sund með Bergvini.

Meira síðar. Afsakið hvað ég hef lítið að segja í bili.

mánudagur, 10. mars 2003

Ruslsíðan er loksins komin í lag aftur eftir að hafa legið niðri í næstum 5 daga. Það þýðir að nú get ég farið að setja inn myndir frá lokahófi Hattar á myndasíðuna. Geri það þegar ég kem heim úr vinnunni, eða síðar í kvöld þegar verkefnum dagsins er lokið.
Þessi helgi hefur verið sallaróleg að föstudagskvöldinu frátöldu. Í dag horfði ég svo á NBA á sýn, 2 leikir sýndir en ég hafði bara úthald í einn og hálfan. Hef ekki hreyft mig neitt af viti síðan á fimmtudaginn og samviskan nagar mig.

Vinsamlegast skráið ykkur í gestabókina fyrst þið eruð að lesa hugsanir mínar. Tók eftir því að í gær mættu hvorki meira né minna en 60 manns á þessa síðu, sem er það mesta sem mælst hefur fyrir utan þegar ég fór á batman.is með 'ég hata bandaríkin' ritgerðina. Í síðustu viku mættu svo 336 manns á þessa síðu, sem er líka það mesta sem mælst hefur fyrir utan batman.is vikuna. En allavega, gestabókin er hér.

sunnudagur, 9. mars 2003

Gleymdi að taka fram ýmis verðlaun sem voru veitt þarna í gærkvöldi á lokahófinu. Sóknarmaður ársins var valinn Eiður, varnarmaður ársins Viggó, Hannibal ársins Viggó, Geirfinnur ársins ég auðvitað (ég og jökull kusum mig, það nægði), útlendingur ársins Aleksandre og Óli Steini ársins var kosinn Jason...minnir mig. Svo var farið á orminn og þar var fátt um manninn. Ásdís Rán mætti á svæðið og það var nokkuð spaugileg atburðarás sem fylgdi í kjölfarið. Allir strákarnir á svæðinu fóru að leika listir sínar fyrir hana, rétt eins og á miðöldum. Verulega fyndið að fylgjast með þessu en svona eru víst pörunarleikirnir í dag. Það má taka það fram að súkkulaðitöffara hárgreiðslan mín ásamt súkkulaðitöffara sólgleraugunum mínum virkuðu ekki á kvenfólkið þetta kvöldið, ekki frekar en venjulega.

laugardagur, 8. mars 2003

Gærkvöldið var ótrúlega skemmtilegt en þá var haldið lokahóf Körfuboltadeildar Hattar í sumarbústað á Einarsstöðum. Drukknir voru allskonar drykkir eins og bolla, hönnuð af Kalla og Davíð, woodys, bjór og Íslenskt brennivín sem Aleksandre hafði keypt til að vera 'inn' í partíinu. Spilað var Gettu betur og drykkjuleikir. Ég var m.a. hafður fyrir rangri sök, þeas að hella niður, og þurfti að drekka brennivín fyrir. Aldrei hef ég drukkið jafn viðbjóðslegan drykk. Eftir grillið, átið og drykkjuna voru skemmtiatriði í boði Árna Kristjáns en hann fórnaði nærbuxunum fyrir gleði hópsins. Myndir verða birtar á morgun, eða um leið og síðudjöfullinn sem ég upphleð myndunum á opnar aftur. Þannig að myndasíðan liggur niðri þessa dagana.
Það er hægt að umorða allt þetta Bandaríkin vs Írak rugl í eina auglýsingu. Hana er að finna hér.
Var að koma úr lokahófi Körfuboltadeildar Hattar. Er langt frá því að vera drukkinn. Allavega, tók ca 100 myndir. Mun birta þær á morgun eða hinn, þegar ég hef geð í mér að gera svo. Sagði ágætis brandara í kvöld, en man svo ekki eftir honum. Downloadaði svo laginu 'More than a woman' með ofurgellunni Aaliyah (ég giska á að foreldrar hennar séu með ultra útgáfu af lesblindu) þegar ég svo kom heim. Eitthvað sorglegt við það, en samt svo... grátlegt. Hlusta því á 'Straight to you' með Nick Cave til að rétta mig af. Verið góð við mig á morgun, laugardag.

föstudagur, 7. mars 2003

Allir að skrifa sig á listann. Það er betra að taka það fram að þetta er meira í gríni en alvöru, ekki hægt að búast við miklum viðbrögðum.
Var að átta mig á því að þetta blogg hér fyrir neðan, hverjir eru skildir mér og svo framvegis, er það allra leiðinlegasta sem ég hef nokkurn tíman skrifað. Það sorglega er að það tók mig rúman klukkutíma. Á þeim tíma hefði ég t.d. getað smurt 15 samlokur og borðað eina þeirra, bloggað um lífsins dásemdir eða dansað í alsælli hamingju.

fimmtudagur, 6. mars 2003

Nú er komið að því að ég nota þessa Íslendingabók. Ég ætla að rekja alla dagbókartengla hér til hægri og jafnvel fleiri (í stafrófsröð). Athuga hvað ég endist lengi.

Vinir og kunningjar eða fólk með dagbók:
Anna Hlín Sigurðardóttir: í 7.-8. lið.
Bergvin Jóhann Sveinsson: í 8.-9. lið.
Bylgja Borgþórsdóttir: í 6.-7. lið.
Eygló Þorsteinsdóttir: í 6. lið.
Garðar Eyjólfsson: í 8. lið.
Guðlaug Árný Andrésdóttir: í 5. lið.
Harpa Vilbergsdóttir: í 6.-7. lið.
Heiðdís Sóllilja Bragadóttir: í 4.-5. lið.
Ingólfur Friðriksson: í 7. lið.
Kristján Orri Magnússon: í 7. lið.
Sigríður Fanney Guðjónsdóttir: í 5.-7. lið.
Katrín(.is) Atladóttir: í 5. lið.

Dagbókalausir vinir:
Aðalsteinn Ingi Magnússon: í 7. lið.
Birgitta Haukdal: í 5.-6. lið.
Bryngeir Daði Baldursson: í 8. lið.
Eiríkur Stefán Einarsson: í 7. lið.
Eiríkur Emilsson: í 6. lið.
Eysteinn Ari Bragason: í 4.-5. lið.
Gylfi Þór Þórsson: í 8.-9. lið.
Jón Bóndi Gunnarsson: í 6.-7. lið.
Jökull Óttar Sigurðsson: í 6.-7. lið.
Miriam Fissers: Algjörlega óskyld.
Óli Rúnar Jónsson: í 7. lið.


Svona. Ef þið viljið útiloka að þið séuð skyld mér, látið mig vita í commentunum hér fyrir neðan. Þá myndi ég athuga þetta og síðar birta niðurstöður.
Fór til tannlæknis í morgun vegna verkjar í munninum síðustu daga. Hélt að þetta væri tannpína en sem betur fer var þetta bara endajaxl að þröngva sér eitthvað og engin skemmd tönn. Ekkert til að hafa áhyggjur af. Mér fannst svolítið grunsamlegt hvað tannlæknirinn hrósaði mér mikið fyrir að nota tannþráð en svo þegar tímanum var lokið uppgötvaði ég hversvegna hann var að sleikja mig upp. 5.900 krónur fyrir 5 mínútna athugun. Svo er fólk alltaf undrandi yfir því að ég fer til tannlæknis á ca 3-4 ára fresti. En allavega, þessi skoðun gefur grænt ljós á lokahóf körfuboltadeildar Hattar sem verður á föstudaginn. Þar ætla ég mér að drekka sæta drykki og auðvitað tek ég ódýru drasl stafrænu myndavélina með, birti svo myndir um helgina. Ég lofa að koma ekki með "Djöfull var ég fullur um helgina..." sögu.

miðvikudagur, 5. mars 2003

Ég hef alltaf haldið því fram að piss.is væri stórkostleg síða. Nú loksins hef ég eitthvað sem sannar mál mitt. Hér hefur eigandi síðunnar fundið "kúl" pistilinn minn og sett hann á pissið. Ekki nóg með að ég sé orðinn heimsþekktur með þessu heldur skrifaði hin ægifagra Katrín.is athugasemd hér í spjallið til hægri, sem segir mér að hún hafi verið hérna. Ævintýrin sem maður lendir ekki í með dagbókarskrifum.
Innrás Fellbæinga er hafin. Kannski útrás frekar.
Alltaf gaman að rekast á myndir frá Trékyllisvík en þar bjó ég, ásamt fjölskyldunni, í 5 yndisleg ár. Skemmtilegt að sjá myndir frá einhverju sem maður hugsar um nánast daglega.
Ömurlegt að vakna 10 mínútur í vinnu, uppgötva sér til skelfingar að hvert einasta hár líkamans stendur upp í loft. Þannig að maður bleytir hárið og drífur sig af stað aðeins til þess eins að uppgötva ca klukkutíma síðar að gelið gleymdist. Nú líður mér eins og hálfvita með hárið eins og í ódýrri eighties klámmynd. Fer að bresta í grát ef ég kem þessu ekki í lag.

þriðjudagur, 4. mars 2003

Var að bæta við myndum á myndasíðuna. Bráðum bæti ég svo við myndum frá Barkanum en Björgvin fréttaritari mætti með myndavélina. Sjáum til hvernig myndirnar framkallast. Allavega, meira síðar.
Ég er farinn að efast um að ég lifi þennan dag af. Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafn þreyttur. Ég svaf yndislega vel í nótt og rumskaði ekki fyrr en kl 7:50 í morgun. Verð að fá sykur.

Boston Public að byrja aftur í kvöld á skjá einum. Magnaðir þættir. Hver segir svo að það gerist aldrei neitt á Egilsstöðum?

mánudagur, 3. mars 2003

Er að hlusta á lagið 'Everybody knows' með meistara Leonard Cohen. Snilldar línur úr laginu:

"Everybody knows that you love me baby
everybody knows that you really do
everybody knows that you've been faithful
give or take a night or two
everybody knows that you've been descreet
but there were so many people you just had to meet
without your clothes
everybody knows
"

Glæsilega ort.
Ég var að uppgötva mér til skemmtunar að ég er alls ekki 'kúl' á nokkurn hátt. Ég á ekki kúl bíl, er ekki í kúl vinnu, geng ekki í kúl fötum, greiði mér ekki kúl og geng ekki með sólgleraugu á djamminu án þess að vera að grínast. Ég hef líka gaman af því að tefla, hlusta á ókúl tónlist (proclaimers) og horfa á ókúl sjónvarpsþætti eins og Neighbours, spila tölvuleiki og viðurkenni það. Ég er ekki sólbrúnn, tala ekki um það hvenær ég fékk að ríða síðast eða hversu gaman það var, nota ekki frasann "fokk jú" og skrifa "kúl" í staðinn fyrir "cool". Það sem gerir mig helst ókúl er að ég er ekki að þykjast vera eitthvað annað en ég er.

sunnudagur, 2. mars 2003

Utah sigraði leikinn á lokaskoti frá Kirilenko. Reyndar var skotið frá Stockton en Kirilenko greip boltann og lagði hann inn þegar undir sekúnda var eftir. Sjaldan hef ég öskrað jafn hátt um ævina. Ég held ég hafi náð að vera hamingjusamur í nokkrar sekúndur á eftir.
Utah Jazz (körfubolta)leikur á sýn á eftir, í fyrsta sinn í 2 eða 3 ár. Þeir mæta New Jersey Nets. Að vísu hef ég ekki sýn og mamma hafði ekki greitt það síðasta mánuð þannig að ég borgaði reikninginn til þess eins að sjá þennan eina leik. Eins og áður segir hef ég ekki séð Utah Jazz spila í 2 ár, að vísu tel ég ekki með þegar ég fór til Minnesota til þess eins að sjá þá spila. Sennilega hápunktur lífs míns.
Í gærkvöldi gerðist ég mjög djarfur og horfði á 100 girls og Misery. Ég meira að segja tók báðar myndir upp og á þær nú á spólu. Sá 100 girls fyrst fyrir ca ári síðan og það kom mér skemmtilega á óvart hversu góð mynd það er. Ég bjóst við einhverju unglingakjaftæði með drykkjusögum og fleiru dæmigerðu en svo var alls ekki. Góður aðalleikari, sem fær venjulega ekki mikið af aðalhlutverkum vegna útlits, og skemmtilegar pælingar hans (eða handritshöfundar) halda myndinni á lofti ásamt gríðarlegu magni af fögru kvenfólki, t.d. Emmanuelle Chriqui og Jaime Pressly.

Bætti svo slatta af hlekkjum hér til hægri og raðaði svo flestum hópum í stafrófsröð.

laugardagur, 1. mars 2003

Höttur sigraði Selfoss áðan í körfubolta í æsispennandi leik 76-70. Ég gerði mér lítið fyrir og sló met, hafði flestar villur að meðaltali á mínútu (1 mín - 1 villa = 1 villa að meðaltali á mínútu). En Kalli náði Hetti yfir í lokin með einu fáránlegasta skoti sem sést hefur og Viðar náði svo að innsigla sigurinn með 4 vítaskotum í röð. Verulega skemmtilegt að taka þátt í þessu þó ég hafi rétt fleiri vatnsflöskur en Jack Haley á heilu tímabili. Þetta var lokaleikur tímabilsins sem þýðir að nú er bara hægt að mæta á æfingar og skemmta sér, loksins.