fimmtudagur, 31. október 2002

Ég var búinn að skrifa ýmislegt hérna áðan og búinn að gera tengil að fyndinni mynd af hálfvitanum George Bush yngri, forseta Bandaríkjanna - heimskasta lands jarðarinnar. En eins og svo oft áður fraust Windows ME hjá mér. Ég skora því á báða lesendur að skrifa hatursfullt bréf til Windows.

10-11 er farið á hausinn hérna á Egilsstöðum, það er allavega að hætta hérna og 40% afsláttur af öllum vörum. Ég versla alltaf í 10-11 og þykir það mjög leiðinlegt að sjá eftir þessari rólegu verslun þrátt fyrir að Bónus komi í staðinn. Mér finnst það einnig mjög sorglegt að sjá allt andlega sjúka fólkið á Egilsstöðum mæta á svæðið (40% afsláttur) eins og hrægammar og versla þar til ekkert er eftir nema bein. Þetta fólk er eiginlega verra en hrægammar því þetta fólk stuðlaði að því að verslunin fór á hausinn með því að versla aldrei þarna.

Tefldi talsvert í dag hérna og fékk 2x jafntefli og 1 sigur. Ég skora á alla að skrá sig og taka í stafræna taflmenn. Ég geng undur því frumlega nafni 'finnurtg' ef þið viljið tefla.

Jæja, hér kemur svo myndin af George Bush, hlandheimska forsetanum:

Og nú bíðum við bara eftir að George Bush bombi Ísland fyrir orð mín, þeas ef hann finnur Ísland.

þriðjudagur, 29. október 2002

Í sundferðinni í gær náði ég að gera ansi merkilegt met. Við gárungarnir (ljótt orð) leikum okkur stundum að reyna að standa á svona plast..frauð...bretti... það er allavega í laginu eins og brimbretti nema talsvert smærra og við stöndum á þessu í kafi sem er frekar erfitt. Strákarnir eru að ná 10 sekúndum mest. Ég hinsvegar hef náð fullkomnum árangri í þessu og í gær freistaði ég gæfunnar og reyndi að sigla yfir sundlaugina standandi á brettinu og það tókst. Ég er gríðarlega stoltur af þessu enda ekki á færi hvers sem er.

Var að framkalla myndir frá helginni, mun fá pláss á simnet.is held ég en þar á ég inni 10 mb. Líklegt er að ég setji þær upp í þessari viku.

mánudagur, 28. október 2002

Helgin var ágæt. Eins og þið sjáið á þessari mynd fóru Jökull og Björgvin á ball um helgina, Stuðmannaball nánar til tekið og skemmtu sér vel.
Ég hinsvegar var heima og lék við hvurn minn fingur við að læra á html forritunartungumálið. Kemur mér á óvart hvað það er einfallt ennþá. En nóg um það.

Í gær, sunnudag, fórum við Björgvin á Borgarfjörð ásamt Sverri Gestssyni skólastjóra Fellaskóla og Sigurði sem ég veit ekki hvers son er en hann kennir í Fellaskóla. Þangað var haldið til að tefla á Sveitaskákmóti Austurlands en þrjár sveitir skráðu sig til þátttöku. Til að útskýra sveitakeppni þá virkar það þannig að við ofantaldir erum saman í liði og teflum á fyrsta til fjórða borði (fyrsta borð best, 4 borð lakast) og eins og í flestum keppnum þá vinnur stigahæsta liðið. Fyrir lokaumferðina, þar sem við tefldum gegn Egilsstaðasveit, vorum við 2 vinningum fyrir neðan Egilsstaðasveitina en nokkrum fyrir ofan Borgarfjörð þannig að við þurftum að sigra með 3 og 1/2 vinningi gegn 1/2 amk til að sigra mótið. Það er hægara sagt en gert að tapa aðeins 1/2 vinningi gegn efstu sveitinni. Þótt ótrúlegt sé þá unnum við allir skákirnar okkar nema Sverrir en hann gerði jafntefli í mjög dramatískri lokaskák. Sjaldan hef ég skemmt mér jafnvel. Bíómyndarétturinn hefur, því miður fyrir áhugasama, verið seldur til 20th Century Fox og búist er við mynd haustið 2007 með Adam Sandler, Brad Pitt, Jackie Chan og Jack Nicholson í aðalhlutverkum.

Myndir frá mótinu koma síðar á heimasíðuna mína. Er að fara í sund.

laugardagur, 26. október 2002

Já heyrðu. Svo fer ég að bæta við á síðuna mína Matreiðsluhorni Finns en þar verður sýnt hvernig einfaldur maður eins og ég getur þrátt fyrir andlegt ástand gert mjög sniðuga og góða rétti. Í þessu Matreiðsluhorni mun ég koma með uppskriftir og birta glæsilegar myndir af hráefni og tilbúnum réttum eftir mig. Ég hef þó eiginlega ekkert verið svangur síðan ég fékk þessa hugmynd og vil helst ekki eyða góðu hráefni bara fyrir myndavélina þannig að þetta verður að bíða í dag eða tvo. Bíðið spennt.
Þetta er mjög fyndið. Baggalútur á skilinn þann heiður að sigra sem besti afþreyingarvefurinn á einhverri verðlaunahátíð.

Ég sagði mjög fyndinn brandara í vinnunni í dag. Halla hjúkrunarforstjóri sagðist nýverið hafa breytt titli sínum í 'Hjúkrunarstjóri' og sagðist bara hafa hent 'for'-inu úr titlinum. Ég sagði þá, og takið vel eftir því þetta er aðeins á færi snjöllustu brandarakalla; "Má ég fá 'for'-ið? þá verð ég For-Ritari" BWAAAHAHAHA! Þegar ég hugsa út í það þá er þetta nánast ekkert fyndið. Það útskýrir af hverju allir störðu á mig í salnum meðan ég hló.

Þakkir fyrir stórkostlega þátttöku í skoðunarkönnuninni. Heilir 10 búnir að kjósa og þar af ég með 5 atkvæði til þess að fá boltann til að rúlla og sennilega einhverjir búnir að velja 2 eða fleiri url. Rannsóknir sýna líka að hundraðasti hver gestur kýs í svona kostningum sem segir mér að amk 200-300 manns hafa litið hér við. Ég lýg reyndar þessu með rannsóknina en samt, gæti alveg verið.

fimmtudagur, 24. október 2002

Það hefur nú snjóað í amk 5-6 tíma á dag síðastliðna 7 daga ef ég tel þennan með. Ég hefði svosem ekkert á móti því ef snjórinn lenti aldrei.

Er búinn að vera mjög latur síðustu daga. Eftir vinnu fengið mér sæti í hægindastólnum mínum og annað hvort sofnað eða horft á sjónvarpið fram eftir öllu. Ég lít á þetta sem ég-nenni-ekki-neinu vikuna sem kemur venjulega eftir að ég hætti óvænt að æfa með Hetti, sem er orðin árlegur viðburður. Í næstu viku tek ég mig á og byrja að synda, skokka og jafnvel lyfta.

Ég vil minna á myndasíðunar sem ég hef hér og hér. Í fyrradag bætti ég við nokkrum myndum úr teitum vikunnar og er þá kominn með rúmlega 100 myndir þar inn eða 14,8 mb af myndum. Þarmeð er ég búinn með allt það ókeypis pláss sem ég get fengið á www.geocities.com. Ég var að spá í að kaupa mér síðu en þá fengi ég nafn (www.nafn.com) á rúmar 800 krónur á mánuði plús meira pláss á síðunni fyrir myndir. Hvaða nafn ætti ég að velja? Þið megið öll þau nöfn sem ykkur líst vel á.

laugardagur, 19. október 2002

Ég tók 'Hvaða prúðuleikari ert þú' prófið bara af því gsm síminn minn hringir gamla muppets laginu og hér er niðurstaða:

You are Kermit!
Though you're technically the star, you're pretty mellow and don't mind letting others share the spotlight. You are also something of a dreamer.Ég er að sjálfsögðu ekki sammála þessu.

föstudagur, 18. október 2002

Jólin eru að koma!!! Allavega er snjórinn kominn og ég er að komast í jólaskap, ca 2 mánuðum of snemma eins og venjulega.

fimmtudagur, 17. október 2002

Það lítur út fyrir að það gangi glæpaalda yfir Egilsstaði um þessar mundir. Talsvert er um að brotist er inn í bíla og jafnvel dæmi um það að tölvu hafi verið stolið úr Menntaskóla á Egilsstaðasvæðinu. Þetta er skelfilegt, fólk er farið að læsa bílunum og halda sig innandyra. Glæpamenn eru hvattir til að fara á lögreglustöðina og segja til nafns þar sem lögreglan á svæðinu er steingeld. Ekki er talið að þetta sé tengt hryðjuverkunum 11 september 2001.

Ísland vann óvænt Litháena í fótboltanum í gær. Atli Eðvaldsson notaði tækifærið og skaut út og suður á allt og alla en svo þegar hann tapar síðustu 3 eða 4 leikjum með markatöluma 0-11 þá má enginn gagnrýna manninn.

Enn hef ég ekkert e-mail fengið varðandi bílinn minn, þeas að einhver eigi Toyota Corolla ´80 árgerð með sjálfskiptinu í lagi sem á að henda og vilji frekar gefa mér fyrst sjálfskiptinguna og henda honum svo. Hver veit nema ég lumi á hálfum lítra af Grape Fruit Diet fyrir þann sem sendir mér e-mail sem gæti leitt til þess að bíllinn minn haldi lífi.

Teljarinn er snargeðveikur á þessari síðu. Hann núllaði sig um daginn og ég hef ekki hugmynd hvernig á því stendur. Hef ég því ákveðið að gera ekkert í því. Ég segi því eins og Einstein sagði eitt sinn; fuck it.

miðvikudagur, 16. október 2002

Mikið að gera þessa dagana. Er að vinna á daginn á heilsugæsunni, svo ýmislegt eins og þvottur, snýkja pening fyrir Hött eða jafnvel sofa fyrir körfuboltaæfingu sem er 5 daga vikunnar og eftir hana borða og sofa. Gef mér ekki mikinn tíma í þetta blogg.

Lítið að frétta þessa stundina. Um helgina fer Höttur, körfuboltaliðið, til Reykjavíkur að keppa við 2 lið, Reyni Sandgerði og eitthvað annað. Mér er sagt að um leið fari fótboltalið ME að keppa og einhverjir yngri flokkar körfuboltans.

Ég mæli með því að kíkja á heimasíðu Hörpu. Hún er komin með svona commenta dót þannig að þú getur sagt eitthvað um hverja dagbókarfærslu hjá henni. Það er ekki oft sem maður hittir stelpu sem er tölvunörd.

Svo mæli ég líka með þessari síðu. Mjög fyndin síða og ótrúlegt hvað þeir nenna að bulla endalaust.

Landsleikur í fótbolta á eftir, Ísland gegn Litháum. Ég ætlaði að spá 6-2 fyrir Litháen en ég áttaði mig fljótlega á því að Ísland getur ekki skorað mark undir stjórn Atla Eðvaldssonar þannig að ég spái 6-0. Talandi um fótbolta, Deportivo Arabe Unido var að sigra, og um leið gera heimsmet í álfukeppni félagsliða, eitthvað lið frá Níkaragúa með 19 mörkum gegn engu. Hvernig ætli mönnunum í tapliðinu líði núna? Þeir töpuðu einmitt nýlega fyrir öðru liði 17-0. Verðugt markmið Atla Eðvaldssonar að leyfa ekki andstæðingum Íslands að bæta þetta met.

mánudagur, 14. október 2002

Þetta eru skemmtilegar teiknimyndaskrítlur. Þessar líka en þessar eru samt bestar af þeim öllum.
Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu rosalegt þetta með Lagarfljótið var fyrr en í gær þegar það flæddi smá yfir veginn. Að sjálfsögðu voru fréttasnápar www.geocities.com/finnurtg (ömurlegt nafn á síðu) á ferðinni og tóku myndir sem birtust hér í gær.

Laugardagskvöld: smá teiti heima í kjallaranum þar sem nokkrar illa valdir kunningjar fengu að vaða uppi með hávaða og önnur drykkjulæti. Ég náði mér aldrei á flug þetta kvöld þrátt fyrir talsverða drykkju. Eftir gleðskap í kjallara var farið á orminn og þaðan á ball. Kl 2:30 ca fór ég heim eftir Sambuka skot sem Ingi bauð mér upp á. Óbragðið er enn upp í mér.

Kíkið á myndir frá þessu kvöldi og frá flóðinu hérna.

Bráðum bæti ég svo við tenglum hér til vinstri og hver veit hvað ég geri við plássið hér til hægri. Munið svo að ef þið skrifið í gestabókina þá fáið þið tengil á síðuna ykkar þar.

laugardagur, 12. október 2002

Fann þetta líka í gær. Mjög sniðugt þó að ekki sé hægt að láta tölvu þýða Íslensku.
Hér eru fleiri fréttir varðandi rigninguna á Egilsstöðum. Þeas hér og hér.
Í kvöld er ball með svörtum fötum og ég ætla á það með vinum og vandamönnum. Eitthvað var talað um grill og jafnvel haldinn fundur til að ræða málið en það hefur rignt svo mikið hérna að það er ómögulegt, auk þess vantaði okkur stað til að grilla á. Spyrjum að leikslokum.

fimmtudagur, 10. október 2002

Ég tók strumpapróf rétt í þessu og þetta eru niðurstöðurnar:


Find your inner Smurf!


Ég nota náttúrulega gleraugu en það er sennilega það eina sem ég á sameiginlegt með þessum strumpi. Þar að auki er ég ekki kommúnisti og yrði þannig að vera Kjartan eða Brandur.

miðvikudagur, 9. október 2002

Það var staðfest í gær að bíllinn minn, Toyota Corolla ´80, á ekki langt eftir. Sjálfskiptingin er ónýt og þarf að skipta henni út. Kostnaðurinn við það færi sennileg upp í 20.000 krónur ef ég tel ekki með varahlutinn, skiptinguna. Ef einhver sem les þetta á Toyota Corolla ´80 árgerð með sjálfskiptingu sem hann ætlar að henda, láttu mig allavega fá skiptinguna. Sendu mér e-mail: ftg@simnet.is og ég skal launa þér greiðann.

Heyrði lagið 'I love rock and roll' með sílikonunni Britney Spears áðan. Finnst engum neitt athugavert við það? Britney Spears og Rokk og ról eiga ekkert sameiginlegt. Lagið er meira að segja í píkupoppsútgáfu, eins og öll hennar tónlist... sem er reyndar ekki hennar tónlist. Heimurinn er að fara til helvítis.

þriðjudagur, 8. október 2002

Sá a time to kill í gærkvöldi. Hún er ágæt, olli mér reyndar vonbrigðum því allir vorum búnir að segja að hún er meistaraverk. Ég tók samt eftir einu frekar fyndnu. Verri vondi kallinn er leikinn af Nicky Katt, sem leikur kennara í Boston Public. Mjög spaugilegt að sjá hann leika villimann. Ég finn hvergi á netinu mynd af honum í hlutverkinu.

Bíllinn minn, Toyota Corolla ´80 árgerð, sem ég hef átt frá ´99 er að deyja. Hann hefur greinst með ónýta sjálfskiptingu eftir að hafa komið úr 30.000 króna viðgerð. Ég ætla reyna að fella ekki tár í kringum hann, annars held ég að hann viti hvað bíður hans.

Þegar ég er búinn að skrifa þetta ætla ég að setja fleiri myndir á netið. Hér og hér getið þið séð þær.

mánudagur, 7. október 2002

Þið hafið væntanlega tekið eftir því að flestir þeir linkar sem ég hef sett upp í setningar hér fyrir neðan virka ekki en það er vegna þess að það eru myndir af www.geocities.com síðunni minni. Geocities.com leyfa ekki beinar tengingar á myndir og skýrslur, bölvuð ófétin. Ég hef verið að leita að ókeypis plássi á netinu annars staðar en ekkert gengur. Þangað til farið bara hingað og skoðið myndir.

En að öðru. Ég ætla að horfa á myndina a time to kill með Söndru Bullock, Matthew McConaughey, Kevin Spacey og Samuel L. Jackson í aðalhlutverkum. Myndin er lofuð í bak og fyrir af flestum sem ég þekki. Ég efast um að hún komist á top 5 listann minn en hann er eftirfarandi:

5. 12 monkeys (Þetta sæti er alltaf að breytast)
4. LOTR: Fellowship of the ring
3. Matrix
2. Contact
1. Seven

Aldrei mun koma út jafngóð mynd og Seven.

Bráðum mun ég svo bæta við myndum frá partíi Jökuls frá laugardeginum á geocities.com síðuna mína, nokkrum frá körfuboltaferðinni á Akureyri og síðasta fréttabréfi SkáME.

laugardagur, 5. október 2002

Kominn aftur frá Akureyri. Höttur tapaði þar æfingaleik gegn Þór með 7-10 stigum, man ekki alveg. Ágætt miðað við að Þór var í úrvalsdeild áður en þeir sögðu sig úr henni vegna einhvers. Ég átti stórleik með 2 stig, 4 villur og rúm 6 fráköst á ca 20 mínútum.

Hannibal keyrði næstum því á rollu á heimleiðinni en það er ekki í frásögu færandi.

Jökull á afmæli nú á miðnætti því ætla ég að bregða undir mig betri fætinum og fara heim til hans þar sem einhverskonar bjórdrykkjusamankoma er í gangi.

föstudagur, 4. október 2002

Í fyrramálið er ég að fara í körfuboltaferð til Akureyrar með Hetti. Þar verða spilaðir 2 æfingaleikir við lið sem ég veit ekki hver eru. Þetta verður fyndið. Ég tek myndavélina með og birti myndir síðar. Góða helgi.
Ég held ég sé búinn að átta mig á þessu tæki. Kem fljótlega með eitthvað bull.

fimmtudagur, 3. október 2002

Í framtíðinni mun ég nöldra talsvert og koma mínum skoðunum á framfæri. Ég veit þó ekki hversu lengi ég nenni að standa í því. Hver veit nema gesta "póstarar" komi fram hérna. Sjáum til.
Hér komist þið á síðuna mína þar sem myndir eru að finna.