Það er komið að því. Áramótaheiti mín fyrir árið 2010 (í stafrófsröð)!
Eldast meira
Bæði ætla ég að elda meira heima og eldast um amk 3,18% á árinu.
Flytja minna
Í fyrra flutti ég einu sinni. Árið 2010 ætla ég að reyna að flytja núll sinnum, sem væri þá 100% fækkun flutninga milli ára.
Kynnast fleira fólki
Árangurinn mælist í Facebook vinum. Núna á ég 293 vini, sem er frekar slappur árangur. Ég stefni á 322 vini fyrir lok árs. Það er um 10% aukning. Með fyrirvara um stórkostlegar náttúruhamfarir. [Facebooksíðan mín]
Minni innivera
Ég vinn inni. Spila körfubolta inni. Fer í ræktina inni. Fer út að hlaupa inni. Nóg komið! Á árinu ætla ég að gera meira úti. Helst allt.
Sofa meira
Ég sef um 6 tíma á virkum nóttum. Það er um 50% af því sem ég þarf. Ég hyggst auka svefninn um 33% á milli ára. Ég vona að yfirmaðurinn taki vel í að ég mæti ekki fyrr en á hádegi í vinnuna.
Spara meira
Sótsvartur almúginn er blankur í dag, skilst mér. Ég vil ekki falla í þann viðbjóðslega hóp. Ég hef því ákveðið að koma í veg fyrir það með því að eignast pening á árinu, jafnvel marga.
Vinna minna
Ég vinn of mikið. Ég hyggst vinna minna. Hljómar einfalt. Ætti að verða auðvelt.
Þéra fólk
Ætla að þéra fólk meira á árinu. Stefni á að auka þéranirnar um 15%.
Þyngjast meira
Helst af vöðvum. Ekki fitu. Eða beinum. Stefni á 15 kg þyngingu.
Þetta var auðveldara en ég hélt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.