Síður

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Í morgun vaknaði ég við að síminn hringdi. Áður en lengra er haldið í sögunni er betra að útskýra með mynd hvernig staðan var:

Fjólublátt = rúmið mitt
Gula = náttborðið
1 = ég
2 = síminn.

Ég lá á maganum, þannig að fyrsta verkefni mitt var að snúa mér við með hjálp handanna. Það var ekki hægt af því ég lá ofan á þeim og svo mikill náladoði í þeim að ég gat ekki hreyft þær.

Þá ætlaði ég að snúa mér við með hjálp fótanna. Það gekk ekki heldur þar sem ég var sárþjáður í náranum vegna þess að ég mætti á körfuboltaæfingu í gær (og er meiddur í nára).

Ég lá því í nokkrar mínútur og hugsaði hvort ég yrði fastur svona í allan dag. Þá datt mér snjallræði í hug. Ég byrjaði að rugga mér í þeim tilgangi að ná að hnoða annarri hendinni undan mér.

Það tókst eftir nokkrar mínútur. Náladoðinn hvarf eftir einhverja stund og ég dró mig að hinum enda rúmsins á annarri hendinni þar sem síminn var. Hann var löngu hættur að hringja (og síðar kom í ljós að þetta hafði verið rangt númer).

Þetta var einhver ævintýralegasta vöknun sem ég hef lent í. Hvernig ég komst svo endanlega á fætur er efni í annan kafla, sem ég fer ekki nánar út í núna (það inniheldur kaðal og notkun á Pýþagoras reglunni).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.