laugardagur, 30. nóvember 2002

Það lítur út fyrir að Lagarfljótið sé að setja met þessa stundina í vatnavöxtum. Það er farið að flæða yfir veginn, aftur. Það heldur áfram að rigna og spennandi að sjá hvort lokað verði til Fellabæjar. Ég tók einhverjar myndir áðan af flóðinu og birti þær innan tíðar. Læt ykkur vita.

Eitthvað er ég að vera veikur þessa stundina. Kítlar í hálsinn og kvefið nálgast nefið á mér óðfluga. Ekki skemmtilegir dagar framundan.

Eins og ég hef sagt áður er George Bush mesta fífl sem orðið hefur forseti. Hér er ágætis sönnun.

Batman.is (tilveran.is fátækra, betri en tilveran) er að gera mjög góða hluti um þessar mundir. Birti hvorki meira né minna en 2 myndir af myndasíðunni minni. Þessa og þessa. Æðislegt. Spurning hversu æðislegt Gullu, Eygló, Bergvini og Björgvini finnst þetta.

Það er búið að brjóta 1000 heimsókna múrinn á myndasíðuna. Ég vil benda þeim einstaklingi sem er nr 75.000 að skrifa í gestabókina.

fimmtudagur, 28. nóvember 2002

Helgi bróðir minn var að benda mér á þetta. (ATH. þetta er myndband, ca 1,5 mín en af íslenskum server fyrir ADSL notendur) Þetta er framtíðin, bæði í körfuboltanum og í tónlistinni. Miklir hugsuðir þarna á ferð.

miðvikudagur, 27. nóvember 2002

Smá viðbót. Er að hlusta á Nick Cave eins og oft áður. Verð að sýna textann við lagið I let love in. Án efa besti textahöfundurinn í dag, fyrir utan auðvitað meistaratexta Britney Spears. Nei annars, það er rusl.
Til að undirstrika mál mitt með Nick Cave er hér textinn við lagið Loverman, sem Metallica tók síðar. Í textanum drullar Cave yfir barnaníðinga.
Í gær var haldin önnur forsala á tónleika Nick Cave. Hann heldur semsagt tvenna tónleika hér, 9. og 10. desember. Í forsölu á fyrri tónleikana seldist upp á 50 mínútum og í gær, fyrir seinni tónleikana, tók það miklu lengri tíma eða um klukkutíma. Þetta eru stórkostlegar fréttir því þetta þýðir að ég kemst ekki á tónleika snillingsins. Og að sjálfsögðu var ekkert gert svo að landsbyggðarpakkið gæti fengið sér miða. Það gat bara flogið suður til að bíða í röðinni.

Stefni á að drekka mjöð um helgina enda búinn að vera duglegur þessa vikuna við að lyfta og nú síðast skokka. Ég myndi líka að öllum líkindum tapa glórunni ef ég gerði ekki eitthvað svona um helgarnar því nýja vinnan byrjar mjög hægt og er þarmeð mjög leiðinleg.

Talandi um vinnuna. Komst að því í dag að ég er 'Fulltrúi' á Skattstofunni. Ef einhver getur sagt mér hvað merkir þá ritið það í athugasemdirnar hér fyrir neðan.

þriðjudagur, 26. nóvember 2002

Til að byrja með, til hamingju Gulla með að vera númer 800 á myndasíðuna. Þetta getur ekki hver sem er.

Lítið að frétta annars. Er að vinna á skattstofunni til 16:00 en þá hleyp ég út öskrandi af hamingju.

Í dag heyrði ég í KK í viðtali hjá rónanum og wannabe hljómsveitarhetjunni Óla Palla. Kom mér mjög á óvart hversu skemmtilegur maðurinn er og hugsi yfir málefnum líðandi stundar. Hann t.d. gagnrýndi stjórnvöldin óspart fyrir að fanga Ástþór Magnússon. Ég er mjög sammála honum í þessu. Nóg um það.

Ætla að horfa á mynd núna sem ég á reyndar eftir að leigja. Róleg kvöldstund framundan.

sunnudagur, 24. nóvember 2002

Ég gleymdi víst að nefna það hér að myndirnar eru komnar inn á myndasíðuna. Ekki voru settar inn nema 40 myndir að þessu sinni sökum þess að 10mb plássið hjá simnet.is fer að vera búið, fjandinn hafi það. Er annars sallarólegur, hlustandi á Lola með The Kinks í þann mund að horfa á video í góðra vina hópi. Ég þakka fólki fyrir að skoða þessa síðu og einnig myndasíðuna. Sérstaklega þakka ég þó fólkinu sem skrifar í gestabókina og í ummælin.

laugardagur, 23. nóvember 2002

Þá er föstudagspartíið liðið og myndir eru í framköllum. Ekki nema 175 myndir teknar eða þar til minniskortið fylltist. Teitið var haldið í sumarbústað á Úlfsstöðum. Viðstödd voru: Björgvin, Jökull, Bergvin, Eiríkur, Gulla, Harpa, Miriam og Eygló. Þetta var hörkufjör en hefði mátt fara betur. Sumir drukku of mikið og aðrir meira. Myndir munu koma upp hérna síðar í dag eða á morgun.

Annars hef ég hafið störf á Skattstofu Austurlands og það er sæmilegt. Ég sakna þó Heilsugæslunnar mikið og sérstaklega starfsfólksins þar. Mjög sérstakur andi þar alltaf. Svo skemmir ekki að vera með diskóþema alla föstudaga.

Harpa sigraði í keppninni um hver væri nr 1000 inn á síðuna. Til hamingju Harpa. Í aukaverðlaun fær hún tengil HÉR inn á síðuna sína.

föstudagur, 22. nóvember 2002

Ég vil gjarnan biðja gest númer 1000 inn á síðuna að skrifa í gestabókina eða í ummælin á þessari færslu. Það er möguleiki að sá einstaklingur hafi unnið sér inn píanó að verðmæti 500.000 krónur.

miðvikudagur, 20. nóvember 2002
Which tarot card are you?Nóg af þessum 'hvað er ég' prófum í bili. Þetta er komið út í rugl.

þriðjudagur, 19. nóvember 2002

I am 13% Geek


Ég vil vera nörd. En ég er það ekki. Af hverju ætti ég að vilja það? Held ég að það sé gaman? Ég ætti að prófa búa til svona 'hvað er ég' spurningar kl 1 að nóttu á nærbuxunum einum fata.

Take the Geek Test at fuali.com

Sko! Nú geta stelpur farið að líta við mér.


the internet junk 'how dumb are you test' deems me:
25% dumb!

overall you are not dumb, you are extremely focused and live your life by a plan, though others might see your single-mindedness as a dumb attitudeÉg er með gleraugu eins og hann. Takið prófið hér.
Ég vil gjarnan þakka Hörpu brjóstgóðu og Bylgju fögru fyrir að benda ítrekað á þessa dagbók mína og myndabókina mína. Takk.

Þið sem eruð að bíða eftir uppfærslu á myndadagbókinni þá verður hún uppfærð á mánudaginn næsta eða sunnudaginn. Á föstudaginn 22.11.02 mun vera haldið heljarinnar partí og stafræna myndavélin verður höfð meðferðis. Þetta er einkapartí (ennþá allavega) og staðsetning partísins fæst ekki gefin upp. Þangað til þá skoðið myndasíðuna enn og aftur og skrifið athugasemdir við þær.

Í gær keypti ég mér Fight Club á DVD. Mjög góð mynd. Það er valmöguleiki á þessum disk (2 diskar reyndar) að horfa á myndina hljóðlausa en hlusta á Brad Pitt, Edward Norton, Helena Bonham Carter og David Fincher ræða myndina, hvert atriði fyrir sig. Mjög sérstakt og skemmtilegt.

Svo sá ég mynd í gærkvöldi, Kóngurlóarmaðurinn að nafni. Hún fjallar um risakónguló sem er bitin af eitruðum manni og fær mannlega eiginleika í kjölfarið eins og að ganga upprétt, tala og greiða sér. Ágætis skemmtun það.

Einnig vil ég hvetja alla til að skrifa í gestabókina og koma með tillögur fyrir þessa síðu. Kærar þakkir í bili.

laugardagur, 16. nóvember 2002

Hér er ný könnun, uppástunga Jökuls.

Smellið hér til að taka þátt.
Bónus opnaði í dag á Egilsstöðum. Ég kíkti með Björgvini bróðir og var í biðröð frá því að ég kom inn. Þvílík mannmergð. Vonandi að það minnki eitthvað umferðin þangað næstu daga.

Lubbi Klettaskáld, geðklofa bróðir minn, var um daginn að fá styrk til að gera ljóðabók. 50.000 krónur hvorki meira né minna og veit hann nú ekki aura sinna tal. Grafískur hönnuður hefur verið fenginn til að gera for- og baksíðu, Árni Már að nafni. Er hann jafnframt unnusti systur minnar.

Körfubolti er vinsælasta íþrótt veraldar samkvæmt könnunni minni en 7 manns völdu hann. Næst var krulla, formúla 1, skák og fótbolti. Þetta kollvarpar öllum kenningum spekinga um vinsældir íþrótta. Niðurstöður hér.

miðvikudagur, 13. nóvember 2002

Rúmlega 4 manneskjur hafa kíkt ca 200 sinnum á dagbókamyndasíðuna sem ég hannaði í fyrrakvöld á fjórum tímum. Ekki hætta að skoða þetta og bæta við ummælum.
Á einhvern undraverðan hátt komst ein myndin á batman.is, sjáðu það hérna.

Í dag sótti ég um vinnu á Skattstofunni á Egilsstöðum og fékk starfið um leið. Ég er þó enn í vinnu á heilsugæslunni og ef þau á heilsugæslunni ákveða að ráða mig amk að áramótum þá mun ég afþakka starfið á Skattstofunni, annars mun ég vinna þar (Skattstofunni) fram á haust sem þýðir að ég fresta ferð minni suður til að stunda frekara nám, sem var áætluð í byrjun janúar. Náðuð þið þessu?

Fór að lyfta í gær í fyrsta sinn eftir drykkjulæti á laugardagskvöld og ég gat varla lyft á mér handleggjunum, hvað þá meiru. Sennilega af því ég er orðinn svo massaður... eða... nei bíddu. Ég finn hvernig heilinn skreppur saman um leið og vöðvarnir stækka. Í kvöld er því áætlað að skokka og fer ég nú eftir þessa færslu.

mánudagur, 11. nóvember 2002

Myndirnar úr kjallarahátiðinni 09.11.02 er komnar upp hérna. Gjörið svo vel að skrifa athugasemdir um hverja mynd. Og skrifið líka í gestabókina.

Ég er annars að flýta mér að skila Harry Potter spólunni frá í gær, horfa svo á CSI og skrifa bróðir mínum e-mail.
Búinn að framkalla myndirnar úr partíinu í gær (laugardagskvöldið) og þær eru margar mjög fyndnar. Ég sýni ykkur það á morgun eftir vinnu þegar ég hef tíma.

Var annars að horfa á fyrstu Harry Potter myndina í góðum hópi bræðra minna og Inga meistara. Mjög góð mynd og er nánast eins og ég hafði ímyndað mér hana eftir að hafa lesið bókina.

sunnudagur, 10. nóvember 2002

Var að vakna eftir heljarinnar teiti í gærkvöldi. ca 10-15 manns í kjallaranum og tónlist í botni. Stafræna myndavélin mín var á lofti og teknar voru 110 myndir sem sýndar verða síðar. Sennilega eitt skemmtilegasta kjallarateitið hingað til. Svo var farið á orminn (viðbjóðslega holan við Kaupfélagið) og eins og alltaf entist ég þar í ca 40 mínútur.

Í dag ætla ég að taka til eftir gærkvöldið og hver veit nema ég gefi mér tíma til að skreppa í sturtu.

laugardagur, 9. nóvember 2002

Hef ekki frá miklu að segja. Í gærkvöldi mættu í kjallarann nokkrir vaskir sveinar og ein stúlka með það að markmiði að drekka og skemmta sér. Ég tók ekki þátt í því enda of mikil gleði fyrir föstudagskvöld. Hér er mynd frá gærkvöldi:Björgvin, Hjörtur og Bergvin í hörkustuði.


Harlem Globetrotters voru á Egilsstöðum í gærkvöldi með sýningu í íþróttahúsinu. Ég hefði mætt... ef ég hefði fengið borgað fyrir. Það kostaði 'ekki nema' 3900 krónur fyrir fullorðna og skitnar 1900 fyrir krakka. Og það mætti víst slatti, fólk var að mæta af fjörðunum til að sjá þetta. Það vildi svo til að ég var í íþróttahúsinu þegar þeir voru inn í sal og ég villtist í búningsherbergi þeirra. Þar sá ég kassa af snakki ásamt gosdrykkjum og einhverju dóti. Þetta vakti óneitanlega furðu mína. Miklir íþróttamenn þarna á ferðinni.

Könnun Björgvins hefur dregið að rúmlega 800 manns sem er mikið afrek.

Ég er í þann mund að setja upp tvö ný fréttabréf SkáME, númer 7 og 8 í röðinni. Hér munið þið sjá þau. Eða hér og hér.

miðvikudagur, 6. nóvember 2002

Orðrómurinn um að Nick Cave sjálfur ætli að halda sólótónleika í Reykjavík 8. desember hefur verið staðfestur hér. Ég er svo spenntur að eistun á mér hafa dregist inn í kviðarholið og geirvörturnar eru stinnar.

En að öðru. Ég hef nú hafið lyftingar, eitthvað sem ég sór þess eið að gera aldrei. En þar sem ég er hættur í körfuboltanum þá verð ég að hreyfa mig og lyfti nú annan hvern dag og skokka hina dagana. Ég er mikið að spá í að gera/kaupa bol þar sem stendur stórum stöfum "Lyftingarmenn eru með lítil tippi" og athuga hvað það tekur langan tíma að láta berja mig. Þá reikna ég með því að vöðvahausarnir í lyftingarsalnum kunni að lesa, sem er ekki sjálfgefið.

Sá merki atburður átti sér stað í gær að könnun Björgvins bróðir var birt opinberlega á síðunni batman.is. Gríðarleg gleði réði ríkjum í herbúðum Björgvins og hafa nú (kl 22:30, 6 nóvember 2002) rúmlega 550 manns kosið.

þriðjudagur, 5. nóvember 2002

Sá orðrómur er í gangi að Nick Cave ætli að halda tónleika í Reykjavík 8. desember næstkomandi. Það eru stórkostlegar fréttir fyrir mig og er ég strax farinn að plana ferð suður. Þetta er einstakt tækifæri.
Fann þessa líka. Mjög góð mynd.Helgi, Björgvin, Styrmir (fremstur) og ég
Ahhh....þegar ég var ungur og heimskur. Nú er ég bara heimskur. Var að finna þessa 2ja ára gömlu mynd:


Finnur og Ingi

mánudagur, 4. nóvember 2002

Ég var að opna vefsvæði mitt á simnet.is netþjóninum sem þýðir að hér eftir get ég gert þetta:


Föngulegur hópur.

sunnudagur, 3. nóvember 2002

Ég er farinn að hlakka til að sjá þennan aftur í maí 2003. Einnig er ég forvitinn varðandi þessa skrattakolla.
Sæl. Klukkan er 1:31am aðfaranótt sunnudags og ég er búinn að setja inn athugasemdir inn rétt eins og Harpa sniðuga. Nú getið þið skrifað ykkar athugasemdir við hverja dagbókarfærslu. Þetta er neðst og það stendur ýmst 'Engin athugasemd', 'Ein athugasemd' ellegar 'Fullt af athugasemdum'. Endilega skrifið sem mest og oftast.

Lítið gert í dag. Gerði heiðarlega tilraun til að horfa á Íslenskan körfubolta á RÚV en það gekk erfiðlega. Hann er alltof hraður og vellirnir alltof litlir. Það er víst lítið hægt að spá í þann Íslenska eftir að ég hef séð NBA körfubolta.

Var að uppfæra síðuna líka um nokkrar myndir. Er búinn að matreiða 2 rétti fyrir matreiðsluhornið og taka myndir þannig að nú þarf bara að rita þetta á blað og setja upp.

Heyrði líka nýja lagið með Nirvana í fyrsta sinn í gær. Það er magnað en mjög öðruvísi en öll lög sem Cobain hafði samið þangað til enda orðinn þreyttur á 'verse-chorus-verse' lögunum sínum eins og hann kallaði það. En það er önnur saga.

föstudagur, 1. nóvember 2002

NBA deildin er hafin og mínir menn búnir að tapa fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Það er þó ekki hægt að kenna aldurslausum aldursforsetum Jazz um en þeir Stockton og Malone eru 40 og 39 ára. Þeir eru að standa sig eins og alltaf.

Í kvöld hef ég verið að dunda mér við að bæta við tenglum hér til hægri (séð frá ykkar sjónarhóli) og hef ég sjaldan skemmt mér jafnvel. Föstudagskvöld eru tenglakvöld hjá mér og getur ekkert breytt því.

Aukreitis hef ég bætt við forláta könnun hér að neðan og hér til hliðar.